Efling kannar hug félagsmanna til verkfallsaðgerða

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Efling kannar nú hug félagsfólks og hópa innan félagsins til möguleikans á verkfallsaðgerðum. 

Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar í samtali við mbl.is. Spurð hvernig hljóðið sé í félagsmönnum í sambandi við verkfallsaðgerðir segir Sólveig: 

„Það hefur ávallt verið svoleiðis, frá því að ég tók við sem formaður, að félagsfólk hefur samþykkt verkfallsaðgerðir til að berjast fyrir kjörum sínum. Það kæmi mér stórkostlega á óvart ef að svo yrði ekki að þessu sinni.“  

Aðspurð segir Sólveig Anna stöðu samningaviðræðnanna mjög undarlega, sérstaklega í ljósi þess að samningaviðræður fóru af stað á mjög jákvæðum nótum þar sem send var út sameiginleg yfirlýsing breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins um helstu markmið kjarasamningsins. 

Frá fundi samningsaðila í Karphúsinu.
Frá fundi samningsaðila í Karphúsinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við náum svo samkomulagi um launaliðinn, en svo gerist það að sjálfsögð og eðlileg forsenduákvæði, sem vinnandi fólk verður auðvitað að hafa inn í langtíma kjarasamningi, verður gríðarlegur ásteytingarsteinn og SA heldur fram hlutum sem að standast á endanum enga skoðun, varðandi það hvers vegna er ekki hægt að hafa slík forsenduákvæði inni í samningum.“

Þetta segir Sólveig Anna og vísar til þess að SA hafi haldið því fram að tillögur breiðfylkingarinnar um forsenduákvæði vægju að sjálfstæði Seðlabankans. Efling fékk hins vegar lögmannsstofu til þess að rita álit um áhrif forsenduákvæða í kjarasamningum á sjálfstæði Seðlabanka Íslands, en í álitinu segir:

„Ekkert stendur í vegi fyrir því að hægt sé að setja forsenduákvæði í kjarasamninga sem lúta að verðbólgu- eða vaxtarstigi. Engin lög banna slíkt og samningsaðilum er ótvírætt heimilt að semja sín á milli um slík ákvæði. Slík forsenduákvæði binda á engan hátt hendur Seðlabanka Íslands né peningastefnunefndar hans og hafa engin áhrif á sjálfstæði bankans.“

Sólveig Anna segir álitið alveg skýrt og í samræmi við málflutning seðlabankastjóra frá því í gær.

Vonar að SA hugsi stöðu sína upp á nýtt

Spurð hvort hún sjái fram á að SA muni koma með eitthvað að borðinu á næstu vikum kveðst Sólveig Anna vona að SA hugsi afstöðu sína upp á nýtt, komist að annarri niðurstöðu og geri þannig samningsaðilum kleift að koma aftur að samningaborðinu. 

„Ég held að það sé vilji allra annarra en SA á þessum tímapunkti, að hér náist kjarasamningar hratt og örugglega.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert