Ekkju flugmanns sem lést í flugslysi á flughátíð á Rangárvöllum í júlí 2019 hafa verið dæmdar bætur úr hendi danska vátryggingafélagsins Beta Aviation ApS.
Hún stefndi félaginu til greiðslu 11,4 milljóna króna með dráttarvöxtum á þeirri forsendu að flugmaðurinn hefði ekki sýnt af sér stórfellt gáleysi er hann flaug vélinni sem hrapaði til jarðar með þeim afleiðingum að hann lést.
Rannsókn tæknideildar lögreglu skilaði þeirri niðurstöðu að slysið mætti rekja til mannlegra mistaka. Hafði flugmaðurinn, sem notaði vélina á undan þeim er lenti í slysinu, gengið frá henni á hefðbundinn hátt með því að vefja öryggisbelti utan um stýripinnann í farþegasætinu.
Talið var líklegt að sá sem lést hefði ekki farið yfir gátlista vélarinnar fyrir flugtak og því ekki verið kunnugt um að aftari stýripinni hennar væri fastur. Komst rannsóknarnefnd samgönguslysa að sömu niðurstöðu og vísaði til þess að stýripinni aftara sætis vélarinnar hefði verið kirfilega festur við aftara sæti vélarinnar við flugtak.
Kom festing aftari pinnans í veg fyrir að flugmaður gæti hreyft stýripinna við fremra sæti og var niðurstaða RNS sú að sá sem í hlut átti hefði hvorki framkvæmt nægjanlega ítarlega fyrirflugskoðun samkvæmt gátlista né hugað að því hvort stýripinni væri laus og réttur.
Í flugtaksbruni skrikaði vélin til hægri, klifraði að því búnu mjög bratt eftir flugtak, ofreis og tók svo að falla niður á hægri vænginn áður en hún spann einn hring til jarðar og brotlenti í graslendi utan flugbrautar.
Í vátryggingarskírteini er vísað til skilmála sem gilda og meðal annars mælt fyrir um hvað falli utan vátryggingarverndar en þar á meðal eru slys sem vátryggingartaki, eða annar vátryggður, veldur af stórfelldu gáleysi.
Meðal málsástæðna stefnanda, ekkjunnar, var að hún ætti rétt á greiðslu dánarbóta úr slysatryggingu flugmanns vegna slyssins, samkvæmt skilmálum tryggingarinnar. Ætti undantekningarregla skilmálanna um stórkostlegt gáleysi flugmannsins ekki við. Sú hugsanlega yfirsjón mannsins að gleyma að líta á aftari stýripinnann og losa öryggisbeltið gæti ekki talist stórkostlegt gáleysi.
Stefndi, Beta Aviation ApS, byggði sýknukröfu sína meðal annars á því að samkvæmt fimmtu grein vátryggingaskilmálanna næði vátryggingin ekki yfir afleiðingar sem vátryggingartaki eða annar vátryggður einstaklingur ylli af stórfelldu gáleysi og byggði á því að slysið hefði eingöngu mátt rekja til háttsemi flugmannsins sem verið hefði gálaus svo stórfellt gæti kallast.
Óumdeilt hefði verið að vélin hrapaði vegna þess að flugmanninum var ómögulegt að stýra henni þar sem stýripinni í aftara sæti var fastur. Teldist hann þar með ekki hafa sinnt skyldum sínum fyrir flugtak.
Ekki var fallist á að stórfellt gáleysi félli utan vátryggingarverndar, enda óheimilt, samkvæmt 3. gr. laga nr. 30/2004, að víkja frá ákvæðum laga um vátryggingarsamninga með samningi ef það leiðir til lakari stöðu þess sem öðlast kröfu á hendur félaginu.
Komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ábyrgð vátryggingafélags samkvæmt íslenskum vátryggingalögum félli ekki fortakslaust niður við það að vátryggingaratburði væri valdið af stórkostlegu gáleysi. Hins vegar gæti slík háttsemi orðið þess valdandi að réttur tryggingartaka til bóta verði skertur að hluta eða í heild.
Skerti dómurinn þar með rétt stefnanda, ekkjunnar, til dánarbóta um þriðjung og dæmdi henni 7,6 milljónir auk dráttarvaxta úr hendi Beta Aviation ApS.