„Farin að kalla þetta Nóadaginn“

Hátt í tvö þúsund börn mæta árlega á öskudag til …
Hátt í tvö þúsund börn mæta árlega á öskudag til að syngja fyrir starfsfólk Nóa- Síríusar. mbl.is/Arnþór

Hátt í tvö þúsund börn og unglingar leggja leið sína árlega á öskudag í Nóa-Síríus þar sem þau syngja fyrir starfsfólkið og fá að launum sælgæti.

„Ég held að það sé alveg óhætt að segja að þetta sé einn vinsælasti viðkomustaður barna og unglinga á höfuðborgarsvæðinu á þessum degi,“ segir Ögmundur Ísak Ögmundsson, vörumerkjastjóri hjá Nóa-Síríusi, í samtali við mbl.is.  

„Hingað streymir náttúrulega alveg gífurlegur fjöldi barna á öllum aldri til að syngja fyrir okkur og fá þau í staðinn veglegan pakka af sælgæti. Það er auðvitað hvergi betra að mæta en í eina stærstu sælgætisframleiðslu landsins til að fá sælgæti. Það er því alltaf gífurleg eftirvænting í loftinu.“

Mikil eftirvænting ríkir fyrir deginum að sögn Ögmundar.
Mikil eftirvænting ríkir fyrir deginum að sögn Ögmundar. mbl.is/Arnþór

Margar einingar af sælgæti

Spurður að því hversu mikið magn af sælgæti fyrirtækið gefi á þessum degi segist Ögmundur ekki alveg viss en það sé þó gífurlegt. 

„Þetta er alveg slatti, alla vega margar einingar og í raun svakalegt magn sem fer frá okkur,“ segir hann og bætir því við að fyrirtækið hafi haldið í þessa hefð í fjöldamörg ár. 

„Þetta nær alveg langt aftur. Sjálfur er ég fæddur árið 1997 og man vel eftir því að hafa komið hingað sem barn á öskudag til að syngja og fá nammi að launum. Þannig að þetta er eflaust búið að vera í meira en 25 ár.“

Löng röð myndaðist í dag við höfuðstöðvar fyrirtækisins.
Löng röð myndaðist í dag við höfuðstöðvar fyrirtækisins. mbl.is/Arnþór

Mikill metnaður hjá starfsfólkinu

„Ég hugsa að það sé ekki hjá mörgum fyrirtækjum þar sem jafn mikil eftirvænting er fyrir öskudeginum og hjá okkur. Við starfsfólkið gerum okkur glaðan dag, klæðum okkur upp í búninga og höfum keppnir og leiki á milli deilda hjá fyrirtækinu. 

Við erum eiginlega farin að kalla þetta Nóadaginn vegna þess að þetta er okkar hátíð,“ segir Ögmundur og bætir því við að allir taki þátt enda sé mikill metnaður og keppnisskap í starfsfólkinu.

„Svo kemur í ljós seinna í dag hvaða deild er með flottasta búninginn. Þetta er mikil stemning og fólk er alveg að skipuleggja þetta í nokkrar vikur og mánuði á undan til þess að vera klárt fyrir daginn í dag,“ segir hann að lokum.

Starfsfólk Nóa-Síríusar tekur daginn alla leið.
Starfsfólk Nóa-Síríusar tekur daginn alla leið. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka