Ólafur E. Jóhannsson
Hermanir hafa verið gerðar fyrir Reykjanesskaga þar sem mögulegum sviðsmyndum hraunrennslis hefur verið varpað upp og þar miðað við hraunflæði frá þekktum sprungusvæðum í átt að raforkuinnviðum á svæðinu.
Varnargarðar hafa verið hannaðir og einnig hækkanir á háspennumöstrum svo að hraun geti runnið undir háspennulínur. Þetta segir Halldór Halldórsson öryggisstjóri Landsnets í samtali við Morgunblaðið.
Hann var spurður um hvaða ráðstafanir hefðu verið gerðar til að verja Suðurnesjalínu 1 sem flytur rafmagn sem framleitt er utan Reykjaness til svæðisins. Þá er lagning Suðurnesjalínu 2 í undirbúningi og taka framangreindar ráðstafanir einnig mið af þeirri línu. Ætlunin er að sú lína verði tekin í gagnið síðla næsta árs.
Halldór segir að farið hafi verið að huga að vörnum raforkumannvirkja strax árið 2020 sem og að gerð viðbragðsáætlunar um hvernig verja megi Suðurnesjalínu 1 og aðra raforkuinnviði á Reykjanesi.
Var verkfræðistofan Verkís fengin til að gera tillögur að varnargörðum eins og þeim sem settir voru upp við orkuverið í Svartsengi, til að verja orkuinnviði fyrir mögulegu hraunrennsli frá öllum þekktum sprungum á Reykjanesi sem líkt var eftir í hraunflæðihermum. Á grundvelli þeirra hermana hafa verið gerðar viðbragðsáætlanir og settar inn í hönnunarforsendur fyrir innviðaframkvæmdir í framtíðinni.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.