Í byrjun febrúar greindist hettusótt á höfuðborgarsvæðinu og hefur nú einstaklingur með tengingu við fyrsta tilfellið einnig greinst með hettusótt.
Þetta kemur fram á vef Embættis landlæknis.
Þar segir, að hettusótt sé orðinn fremur sjaldgæfur sjúkdómur hér á landi, enda verið bólusett almennt frá 1989.
„Eftir 2000 hefur sjúkdómurinn þrátt fyrir þetta náð útbreiðslu í nokkur skipti, aðallega hjá fólki sem fætt er 1985–1987 og hefur því verið hvatt til bólusetningar með MMR fyrir þessa árganga frá 2015. Eldri árgangar eru álitnir almennt ónæmir vegna tíðra hettusóttarfaraldra sem gengu fram til 1984,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram, að hettusótt sé öndunarfærasýking vegna hettusóttarveiru sem dreifist svipað og kvef eða inflúensa, með beinum úða frá öndunarfærum við hósta eða hnerra eða með beinni snertingu við úðamenguð yfirborð s.s. hurðarhúna. Hettusóttarveira óvirkjast fljótt utan líkamans, ekki er talin hætta á hettusótt meðal fólks sem var samtímis veikum á biðstofum o.þ.h. án návígis.
Meðgöngutími hettusóttar er um 3 vikur. Fólk sem hafði umgengist fyrsta tilfellið náið fékk upplýsingar um það fyrr í febrúar og var óbólusettum í þeim hópi bent á að halda sig frá öðru fólki meðan meðgöngutíminn líður til að draga úr hættu á frekari dreifingu.