Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að hælisleitendakerfið hér á landi sé ósjálfbært og að Ísland eigi ekki að skera sig úr frá Norðurlöndum.
Þá segir hún einnig að ekki hægt sé að vera með opin landamæri samhliða velferðarkerfinu.
Þetta kom meðal annars fram í viðtali við hana í hlaðvarpsþættinum Ein pæling sem Þórarinn Hjartarson stýrir.
„Ég er sammála því sjónarmiði, að ef við erum að tala um hælisleitendakerfi, þá á Ísland ekkert að skera sig úr frá Norðurlöndum. Ég meina, við verðum auðvitað bara að ganga í takt við aðrar þjóðir hvað það varðar. Og það þýðir ekki að við séum ekki með mannúð að sjónarmiði. En við þurfum að vera með pragmatík og raunsæi að sjónarmiði. Því okkur ber skylda að passa upp á kerfin okkar líka,“ sagði Kristrún meðal annars.
Viðtalið fór um víðan völl og snerist að miklu leyti um stefnu hennar í útlendingamálum.
Spurð um fjölskyldusameiningar Palestínumanna kvaðst hún ekki vera of mikið inn í málinu en ítrekaði þó að skoða þyrfti regluverkið í samanburði við það sem fyrirfinnst á Norðurlöndum.
„Mér finnst það fullkomlega eðlilegt að við veltum því fyrir okkur af hverju við ættum að vera með öðruvísi reglur heldur en löndin í kringum okkur. Varðandi þetta einstaka mál samt núna – reglurnar eru eins og þær eru núna. Ríkisstjórnin er að reka þessa stefnu núna. Hún tekur ákvörðun um að veita þessi dvalarleyfi núna.
Það er búið að vekja ákveðnar væntingar. Fólk stendur úti í miðri á og er í mjög örvæntingarfullri stöðu. Það sem maður skilur ekki er af hverju málið er ekki bara klárað. Ég veit þetta er flókið, ég er ekki að segja að þetta sé auðvelt. En það er alveg hægt að taka umræðu um hvernig hælisleitendakerfið á að vera til lengri tíma.“
Þórarinn spurði þá:
Þegar þú segir sjálfbær ertu þá að tala um að við tökum á móti færri?
„Ja, að við séum að minnsta kosti að við setjum okkur einhverskonar markmið sem að við getum staðið undir.“
Þá kvaðst Kristrún hafa skilning á áformum Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra um lokað búsetuúrræði og telur því að virða ekki úrskurði þurfi að fylgja afleiðingar.
„Já, nei, ég skil þetta. Mér finnst ekki gott að það sé verið að vista fólk á Hólmsheiði. Vegna þess að við erum ekki með úrræði fyrir fólk. Það er það sem að við höfum verið að gera í dag. Það er verið að vista fólk í fangelsum. Þannig að í því samhengi þarf að grípa til úrræða,“ sagði Kristrún meðal annars en bætti því þó við að hún setti athugasemdir við það að börn yrðu vistuð í úrræðinu.
„Ég set hins vegar stórt spurningarmerki að það eigi að vista börn í svona úrræðum. Mér finnst það ekki við neinar kringumstæður ásættanlegt. Því að börn taka auðvitað ekki ákvörðun um það hvers konar vegferð foreldrar þeirra fara með sig í. Og hvort foreldrar þeirra virði úrskurði og hvað sem það svo sem er.“
Kristrún sagði einnig að hælisleitendakerfið væri ósanngjarnt og ósjálfbært. Spurði hún hvort að ákvörðun um vernd ætti að byggjast á því hvort að flóttamaður hafi komist til landsins og veltir hún því fyrir sér hvort að frekar ætti að taka á móti fleiri kvótaflóttamönnum.
„Það er ómannúðlegt líka því að ef að fólk ætlar að leggja það á sig að komast hingað þá er það oft að leggja á sig alveg hrottalega vegferð. Margir látast á leiðinni. Við getum ekki sagt að þetta sé sjálfbær leið á því að sinna flóttafólki ef við ætlum að taka á móti yfir höfuð.
Og svo hef ég líka sagt að þetta er ósjálfbært því að við erum illa undir þetta búin. Og við virðumst ekki hafa stjórn á því hvernig við vinnum þessar umsóknir og hvernig við tökum á móti fólki.“
Segir hún að í grundvallaratriðum snúist jafnaðarmannastefnan um það að fólk borgi skatta, í landinu sé samfélagslegt traust og samtrygging.
„Auðvitað byggir það á því að þú ert með landamæri. Eðli málsins samkvæmt. Ef þú ætlar að reka velferðarsamfélag þá þarftu að vera með lokað kerfi að því leytinu til.
Það þýðir ekki að þú sért ekki með svigrúm til að taka á móti fólki en þú verður að gera það eftir ákveðnu kerfi. Og eins og ég segi, við hljótum, sem jafnaðarmannaflokkur, að vilja halda í ákveðin gildi í okkar samfélagi.“