Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), kveðst ekki geta tjáð sig um hugmyndir VR og Eflingar um verkfallsaðgerðir en segir það eindregna afstöðu SA að þau séu í kjaraviðræðum.
„Samtök atvinnulífsins slitu ekki þeim viðræðum og við erum svo sannarlega tilbúin til samtals um forsenduákvæði,“ segir Sigríður og vísar til þess að þegar slitnaði upp úr samningaviðræðum á föstudag var samkomulag um launalið kjarasamninganna í höfn en ekki höfðu náðst sáttir um forsenduákvæði samninganna.
Spurð hvers vegna ekki náist sáttir um forsenduákvæðin segir Sigríður samningsaðilum greina á um leiðina að markmiðinu, eða því sameiginlega markmiði að gera kjarasamninga um að verðbólga minnki auk þess að skapa skilyrði til að vextir gætu lækkað.
„Þetta er eitt stærsta hagsmunamál bæði íslenskra heimila og íslenskra fyrirtækja þessa dagana.“
Þá segir Sigríður mikilvægt að afstaða SA um mikilvægi forsenduákvæða komi fram, en þeirra afstaða er sú að forsenduákvæði séu mikilvæg þegar gerðir eru langtímakjarasamningar.
Sigríður útskýrir að meðal forsenduákvæða SA sé að á næstu fjórum árum, tímabilinu sem er undir í tengslum við umrædda kjarasamninga, verði tveir endurskoðunartímapunktar. Annars vegar þann 15. mars 2025 og hins vegar undir lok árs 2026.
Samhliða því yrði skipuð svokölluð forsendunefnd, sameiginleg nefnd samningsaðila, sem hefði það hlutverk að koma saman á endurskoðunartímapunktunum og meta hvort forsendur kjarasamninganna standist eða ekki.
„Við höfum lagt það til að á þessum fyrri tímapunkti taki við sjálfkrafa viðbrögð ef forsendunefndin kemst ekki sameiginlega að viðbragði og forsendur standast ekki.“
Þá segir Sigríður SA jafnframt hafa lagt það til að ef nefndin kemst ekki að sameiginlegri niðurstöðu, á þessum fyrri endurskoðunartímapunkti, þá taki við sjálfkrafa viðbragð í formi kauptaxtaauka.
Á seinni endurskoðunarpunktinum leggur SA það til að að samningsaðilar geti sagt upp samningnum með þriggja mánaða fyrirvara ef markmiðin eru ekki að standast, segir Sigríður og bætir við:
„Þetta hefur verið okkar tillaga og okkar sýn okkar viðræðugrundvöllur við í rauninni breiðfylkinguna og það er kannski þeirra að svara til um áframhaldandi samtal.“
Spurð út í ummæli breiðfylkingarinnar um að boltinn sé nú hjá SA svarar Sigríður:
„Þetta er viðræðugrundvöllurinn. Við slitum ekki viðræðunum,“ en bætir þó við að það sé ríkissáttasemjara að boða til formlegs viðræðufundar.
Spurð út í lögfræðiálit sem Efling fékk lögfræðistofu til að gera fyrir sig í kjölfar ummæla SA um að forsenduákvæði í kjarasamningum myndu vega að sjálfstæði Seðlabanka Íslands svarar Sigríður því til að SA hafi sagt kröfur verkalýðsfélaganna hagfræðilega slæma hugmynd.
„Kröfur verkalýðsfélaganna voru þær að ef að stýrivextir hefðu ekki lækkað um 2,5% í mars 2025, sem er þá ári frá því að samningarnir tækju í gildi, að þá væri hægt að segja samningunum upp. Við höfum sagt að það sé í rauninni hagfræðilega slæm hugmynd að vera með slíka tengingu í kjarasamningum við stýrivexti,“ útskýrir Sigríður og bætir við:
„Megin ástæðan fyrir því er auðvitað sú að ef við erum með stýrivexti sem samningsatriði inn i í kjarasamningum, þá getur það gert seðlabankanum erfiðara fyrir heldur en ella að tryggja einfaldlega kaupmátt þeirra launa sem að samið er um."
Sigríður segir það liggja í augum uppi að ef peningastefnunefndin þurfi að huga að því að eigin ákvarðanir geti sett íslenskan vinnumarkað í uppnám, þá bindi það hendur nefndarinnar á óbeinan hátt. Það sé það sem SA sé að vísa til þegar þau höfnuðu beinni tengingu við stýrivexti Seðlabankans inni í kjarasamningunum.
„Á nákvæmlega sama hátt og við vitum það að stýrivaxtaákvæði í kjarasamningum eru auðvitað bara lögfræðilega heimil þá eru þau bara hagfræðilega slæm hugmynd.“