Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir holan hljóm í gagnrýni á aukinn kostnað við nýja brú yfir Fossvog þegar ekki sé horft til þess hvernig kostnaðarmat við aðrar framkvæmdir hefur á sama tíma aukist mikið. Tekur hann sem dæmi bæði vegaframkvæmdir innan höfuðborgarsvæðisins og á landsbyggðinni sem hafa sum meira en tvöfaldast. Þetta kemur fram í færslu Dags á Facebook.
Í færslunni gagnrýnir Dagur það sem hann segir vera „holur hljómur“ í áhuga þingmanna og Morgunblaðsins á kostnaðaráætlun brúarinnar. Hefur nokkuð verið fjallað um aukinn kostnað við brúna í blaðinu undanfarnar vikur eftir að ljóst varð að heildarkostnaðarmat geri nú ráð fyrir 8,8 milljörðum í framkvæmdir við brúna, landmótun og landfyllingu. Hafði verðmiðinn í september á síðasta ári verið upp á 7,5 milljarða.
Nánari útlistun á kostnaði sýnir að áætlaður kostnaður við brúna er 6,7 milljarðar króna en kostnaður við landmótun og yfirborðsfrágang er áætlaður 2,1 milljarður króna, en í frumdrögum að fyrstu lotu borgarlínu, sem kynnt var í febrúar 2021, var áætlaður kostnaður við brúna sjálfa 2,25 milljarðar.
Þá hefur verið greint frá því að kærunefnd útboðsmála hafi komist að þeirri niðurstöðu að kostnaður við brú hafi haft lítið vægi í tillögum í hönnunarsamkeppni Vegargerðarinnar um brúna og ekkert vægi í lokavali.
Hefur Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, meðal annars kallað eftir því að Vegagerðin svari fyrir hækkaða kostnaðaráætlun. Þá hafa Jón Gunnarsson og Njáll Trausti Friðbertsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, lýst áhyggjum vegna þróunarinnar. Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, hefur hins vegar vísað á bug að kostnaður hafi ekki haft vægi við mat á tillögunum.
Dagur segir í færslu sinni að rétt sé að kostnaðarmat vinningstillögunnar fyrir brúna, sem hefur fengið nafnið Alda, hafi tvöfaldast. Segir hann eðlilegt að ræða slíkar breytingar í kostnaðaráætlunum opinberra framkvæmda og að leitað sé skýringa á þessum breytingum.
Hann segir hins vegar að skoða þurfi þetta í samhengi við aðrar opinberar samgönguframkvæmdir. „Það er hins vegar líka rétt að það að holur hljómur í því að þingmenn takmarki áhyggjur sínar og umræðu við Fossvogsbrú en dragi það ekki fram í þessari umræðu að sömu hækkanir eiga reyndar við um samgönguverkefni almennt,“ segir Dagur.
Tekur hann nokkur dæmi um nýleg samgönguverkefni. Meðal annars að upphaflegt kostnaðarmat Vegagerðarinnar fyrir Arnarnesveg hafi verið 1,6 milljarður, en endanlegur heildarkostnaður sé nú um 7,2 milljarðar. Heyrir þetta verkefni undir samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem Alda og borgarlínuframkvæmdir heyra einnig undir.
Dagur segir dæmin hins vegar mun fleiri þegar horft sé til landsins alls. Þannig hafi heildarmat á samgönguáætlun ríkisins, sem eru nýframkvæmdir fyrir utan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, farið úr 264 milljörðum árið 2020 í 453 milljarða í fyrra.
„Einstök verkefni þar eru á mismunandi hönnunarstigi, og jafnvel á frumkostnaðarstigi og gætu hækkað töluvert enn, einsog reynslan kennir. Líkt og í Fossvogsbrú er líklegt að verðbólga og ýmis aðföng, líkt og stál, hafi hækkað umtalsvert kostnaðarmat á einstökum verkefnum, m.a. vegna stríðsins í Úkraínu,“ segir Dagur um ástæður þessara hækkana.
Nefnir hann svo stök dæmi úr samgönguáætlun ríkisins frá 2020 og hvernig áætlun ársins 2023 vegna sömu verkefna hljómar:
Þá vísar Dagur einnig til þess að rétt sé að horfa til þess að Fossvogsbrú verði gríðarleg samgöngubót fyrir mjög fjölmennan hóp landsmanna og stytti ferðatíma frá Hamraborg til nokkurra af fjölmennustu vinnustaða landsins, meðal annars háskólana og Landspítalans.