Sigurður Ágúst Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri DAS, hefur ákveðið að gefa kost á sér til formanns í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) á aðalfundi félagsins sem fram fer 21. febrúar klukkan 14 í Gullhömrum.
Kemur meðal annars fram í fréttatilkynningu að Sigurður hafi víðtæka reynslu í aðkomu að uppbyggingu dvalarheimila á vegum Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins.
Lét Sigurður nýverið af störfum sem forstjóri Happdrættis DAS en því starfi gegndi hann í 33 ár. Áður starfaði hann sem aðalbókari Hrafnistuheimilanna og sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá Slökkviliði Reykjavíkur.
„Verði ég kjörinn formaður FEB mun ég leggja mitt að mörkum til að viðhalda og bæta það góða félagsstarf sem nú er rekið innan félagsins. Þá mun ég berjast gegn því óréttlæti sem eldri borgurum er sýnt á allt of mörgum sviðum, en draga verður verulega úr tekjuskerðingum þess hóps sem fær ellilífeyrir almannatrygginga frá Tryggingastofnun,“ er haft eftir Sigurði í tilkynningunni.
Sigurður er fæddur árið 1953 og ólst hann upp í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík. Hann er kvæntur Guðrúnu B. Björnsdóttur læknaritara og eiga þau þrjár dætur og fjögur barnabörn. Þá útskrifaðist Sigurður úr Verzlunarskóla Íslands og er með próf frá Háskólanum í Reykjavík í fjármálum og rekstri.