Skipum fækkar vegna Hútanna

Von er á færri skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur en í fyrra.
Von er á færri skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur en í fyrra. mbl.is/sisi

Vegna óstöðugleikans á Rauðahafi verða færri komur skemmtiferðaskipa til Íslands næsta sumar en áætlað var. Þetta staðfestir Sigurður Jökull Ólafsson markaðsstjóri Faxaflóahafna.

Komur skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur í sumar eru áætlaðar 255 en sumarið 2023 voru þær 264. Væntanleg eru 90 skip en voru 99 í fyrra. Sum skipanna koma nokkrum sinnum til hafna eftir hringferðir um landið. Farþegar skemmtiferðaskipa voru 306.311 í fyrra en áætlað er að þeir verði tæplega 300 þúsund í sumar.

Góðu frétttirnar eru þær, segir Sigurður, að af þessum fjölda er áætlað að rúmlega 150 þúsund verði skiptifarþegar. Er þá átt við farþega sem koma til landsins með flugi og fara um borð í skipin í Reykjavík. Þeir stíga svo frá borði í Reykjavík að siglingu lokinni og halda til síns heima með flugi.

Treysta sér ekki um Rauðahafið

Eins og fram hefur komið í fréttum undanfarna mánuði hafa Hútar í Jemen gert árásir á skip á Rauðahafinu. Þeir hafa tekið afstöðu með Hamas-samtökunum gegn Ísrael.

Skemmtiferðaskip, sem nú sigla um höfin í Asíu, færa sig yfir til Evrópu á sumrin. Útgerðir skipanna treysta sér ekki til að láta þau sigla um Rauðahafið að Súesskurðinum vegna ástandsins. Því eru skipin látin sigla suður fyrir Góðrarvonarhöfða syðst í Afríku á leið sinni til Evrópu.

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert