Loka þurfti fyrir heitt vatn í nokkrum hverfum á Suðurnesjum í dag vegna bilana í dreifikerfi HS Veitna.
Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ, staðfestir í samtali við mbl.is að í sjálfu sér sé um tiltölulega fá hús að ræða í Suðurnesjabæ en að þau standi við Gerðaveg, Gauksstaðaveg og Sunnubraut í Garði.
Magnús segir að búist hefði verið við að einhvers staðar kæmi eitthvað upp á.
„Það komu upp einhverjir smálekar í stofnlögn í kerfi HS Veitna í þessum þremur götum í Garðinum,“ segir hann og bætir við að menn hafi vitað að einhverja daga tæki að ná upp fullum þrýstingi á kerfið.
Magnús segir allar stofnanir bæjarins vaktaðar. „Við erum með píparagengi og alls konar mannskap í að passa upp á það allt saman.“
Segir hann að ágætur þrýstingur sé kominn á kerfið en misjafnt sé þó hvernig tekist hefur að ná fullum þrýstingi á einstaka hús.
„Heilt yfir hefur þetta gengið ágætlega.“
Páll Erland, forstjóri HS Veitna, sagði í hádegisfréttum á Bylgjunni að loka hefði þurft fyrir heitt vatn í fleiri hverfum á Suðurnesjum; hverfum í Njarðvík, Vogum og Sandgerði.
Sagði hann viðgerðir ganga vel en búast megi við einhverjum truflunum áfram.
Þá sagði hann að vatn gæti orðið brúnleitt þegar heita vatnið fer aftur að streyma og að það gæt tekið nokkra daga að verða tært á ný.