Hæstiréttur hefur staðfest dóma yfir þeim Guðlaugi Agnari Guðmundssyni og Halldóri Margeiri Ólafssyni, sem hlotið þunga dóma í saltdreifaramálinu svokallaða. Hlaut Guðlaugur 8 ára dóm fyrir sinn þátt, en Halldór 10 ára dóm.
Þá komst Hæstiréttur einnig að því að brot þeirra hefðu verið liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka og að heimilt hafi verið að notast við gögn úr svokölluðu Encrochat samskiptaforriti sem bárust frá Europol.
Saltdreifaramálið er eitt stærsta fíkniefnamál í sögu landsins.
Mennirnir, Guðlaugur Agnar Guðmundsson og Halldór Margeir Ólafsson, voru ásamt öðrum ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og skipulagða brotastarfsemi með því að hafa staðið saman að innflutningi á saltdreifara sem í voru faldir 53 lítrar af amfetamínvökva hingað til lands frá Hollandi.
Þetta gerðu þeir í félagi með tveimur óþekktum erlendum aðilum, móttekið tækið og fíkniefnin og haft í vörslum sínum á nánar tilgreindri jörð og í samvinnu við óþekktan íslenskan aðila fjarlægt amfetamínvökvann úr saltdreifaranum og framleitt allt að 117,5 kg af amfetamíni í sölu- og dreifingarskyni.
Þá var Halldóri Margeir ásamt öðrum meðákærðu gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot og skipulögð brotastarfsemi með því að hafa staðið saman að kannabisræktun í útihúsi á nánar tilgreindri jörð.