„Þurfum að leiðrétta kúrsinn í þessu máli“

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef miklar efasemdir um að því ferli sem kom frá meirihluta fjárlaganefndar hafi verið fylgt. Það er lausung í því hvernig staðið er að málum,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður og 1. varaformaður fjárlaganefndar, í samtali við Morgunblaðið.

Hann vísar til bókunar meirihluta nefndarinnar frá árinu 2019, þar sem rík áhersla var lögð á að Betri samgöngur upplýsti nefndina ef stefndi í frávik kostnaðaráætlana einstakra framkvæmda Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Tilefnið er mikil hækkun kostnaðaráætlunar Fossvogsbrúar, sem hefur fjórfaldast á þremur árum og stendur nú í 8,8 milljörðum með landfyllingum. Hefur Njáll Trausti miklar efasemdir um hvernig að málum hefur verið staðið.

Fulltrúar Vegagerðarinnar voru í vikunni kallaðir á fund nefndarinnar, þar sem þeir vísuðu ábyrgð á Betri samgöngur, sem nefndin hefur boðað á fund sinn.

Á fundinum útskýrði Vegagerðin hvernig á því stæði að kostnaður við áformaða Fossvogsbrú hefði margfaldast. Í upphafi hafi verkefnið verið á algeru frumstigi hönnunar, „með allt að 100% óvissu um kostnað vegna þroskastigs verkefnisins skv. viðurkenndum aðferðum verkefnastýringar,“ segir m.a. í skýringum.

„Við þurfum að leiðrétta kúrsinn í þessu máli. Það þarf að vinna miklu nánar með þinginu þannig að við séum inni í því hvernig farið er með fjármuni ríkisins. Þetta eru mjög stór verkefni, gríðarlegt fjármagn sem fer í Samgöngusáttmálann sem Betri samgöngur eru með. Ferlið verður að vera á hreinu, við getum ekki verið með opinn tékka,“ segir Njáll Trausti.

„Stjórnsýsla málsins er ekki í lagi og við getum ekki útvistað opnum tékka til annarra aðila en þeirra sem bera ábyrgð á hvernig farið er með fjármagn ríkisins, það er Alþingi sem ber hitann og þungann af þessum verkefnum kostnaðarlega. Ég hef haft töluverðar áhyggjur af þessu ferli frá byrjun. Meirihlutaálit nefndarinnar sýnir það líka,“ segir Njáll Trausti og nefnir að ríkisendurskoðandi fylgist með, enda sé full ástæða til.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert