Verkfall það eina sem hreyfir við SA

Ragnar Þór segir verkfallsaðgerðir einu aðgerðirnar sem eftir eru í …
Ragnar Þór segir verkfallsaðgerðir einu aðgerðirnar sem eftir eru í vopnabúrinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, á ekki von á að Samtök atvinnulífsins (SA) komi með eitthvað að borðinu nú þegar breiðfylking stéttarfélaga hefur lýst yfir árangursleysi. Segir hann verkfallsaðgerðir það eina sem virðist hreyfa við SA.

Ragnar Þór fundaði með trúnaðarráði VR í gærkvöldi þar sem farið var yfir stöðuna og næstu skref. Á fundinum fékk Ragnar Þór heimild frá sínu baklandi, trúnaðarráði, til að hefja undirbúning aðgerða ef þörf krefur.

Breiðfylkingin fundar í dag 

„Það er sorglegt að segja frá því en verkfall virðist vera það eina sem hreyfir við Samtökum atvinnulífsins og eftir atvikum stjórnvöldum,“ segir Ragnar Þór.

Spurður hvort hann sjái fyrir sér að grípa til verkfallsaðgerða segir Ragnar Þór að það sé ferli sem taki langan tíma að skipuleggja og fara í ef til þess kæmi.

Auk þess sé VR í samstarfi við önnur félög í breiðfylkingunni og kveðst hann ekki geta svarað fyrir þau. Hann segir breiðfylkinguna þó ætla að funda klukkan 13 í dag þar sem farið verði yfir heimild VR til aðgerða.

 Fólk orðið langþreytt á stöðunni 

„Ég held að mínu baklandi sé misboðið hvernig Samtök atvinnulífsins hafi komið fram í þessum viðræðum og þá stöðu sem að við erum sett í, miðað við það að við höfum farið fram með mjög sanngjarnar og hófsamar kröfur, háleit og góð markmið sem gagnast öllum,“ segir Ragnar og bætir við:

„Það er verið að svara kalli bæði Seðlabankans, stjórnvalda og atvinnulífsins um að fara í sameiginlegt verkefni en síðan strandar þetta á Samtökum atvinnulífsins. Sú samheldni og sá óyggjandi stuðningur sem var á fundinum í gær við mig og samstaðan sýnir að fólk er orðið langþreytt á stöðu hárra vaxta og verðbólgu, gjaldskrárhækkana sveitarfélaga og ríkis, og er tilbúið til þess að fara í aðgerðir til að ná fram breytingum.“

Verkfall það eina sem eftir er í vopnabúrinu

Ragnar segir það sérstakt við stöðuna núna að samningsaðilar hafi náð saman um launaliðinn sem hann segir yfirleitt stærsta ágreininginn. Nú séu einungis eftir sanngjörn og eðlileg forsenduákvæði sem hann segir SA ekki geta sætt sig við.

„Þetta er staðan og verkfall er það eina sem við eigum eftir í okkar vopnabúri til að þrýsta á samning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert