10 daga frestur til að ná samningi

Formenn félaganna á fundinum.
Formenn félaganna á fundinum. Ljósmynd/Aðsend

Samninganefndir Fagfélaganna (MATVÍS, VM og RSÍ) hafa gefið fulltrúum sínum við samningaborðið 10 daga frest til að ná saman við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning á almennum markaði.

Hafi aðilar ekki komist að samkomulagi að þeim tíma liðnum munu samninganefndirnar hefja undirbúning aðgerða.

Þetta var niðurstaða hitafundar samninganefnda félaganna þriggja í Húsi fagfélaganna í hádeginu í dag, að því er kemur fram í tilkynningu.

Líflegar umræður 

Þar kynnti Benóný Harðarson, forstöðumaður kjaradeildar Fagfélaganna, stöðu mála í samningaviðræðum við SA.

„Að kynningu lokinni tóku við líflegar umræður, sem fóru langt fram úr tímaáætlun. Ljóst er af þeim umræðum að þolinmæði fyrir árangurslitlum samtölum við samningaborðið í húsakynnum ríkissáttasemjara er á þrotum. Bent var á að mánuðir séu liðnir frá því samtalið hófst,” segir í tilkynningunni.

„Samninganefndirnar hafa í ljósi þessa verið boðaðar til annars fundar föstudaginn 23. febrúar, eftir 8 daga. Verði ekki útlit fyrir að samningar takist þá helgi, hyggjast samninganefndir MATVÍS, VM og RSÍ leggja á ráðin um undirbúning aðgerða til að knýja á um nýjan kjarasamning.”

Fram kemur í tilkynningunni af fagfélögin hafi fundað með SA hjá ríkissáttasemjara í gær, miðvikudag og í dag. Kjarasamningar runnu út síðastliðin mánaðamót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert