Breiðfylkingin fundar stíft

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að breiðfylking stéttafélaganna hafi góðan fund í gær og að annar fundur hafi verið boðaður á morgun.

Upp úr slitnaði í viðræðum breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins á föstudaginn. Samkomulag var í höfn um launalið kjarasamninganna en ástæða þess að upp úr viðræðunum slitnaði var sú að ekki náðist sátt um forsenduákvæða samninganna.

„Þetta var góður fundur hjá okkur í breiðfylkingunni og við ætlum að hittast aftur á morgun. Við erum ávallt að stilla saman okkar strengi og það gengur bara mjög vel. Ég hef sagt það margoft og segi aftur. Boltinn er hjá Samtökum atvinnulífsins,“ segir Sólveig við mbl.is.

Sólveig segir að könnun sé nýfarin af stað þar sem Efling kannar hug félagsfólks og hópa innan félagsins til möguleikans á verkfallsaðgerðum. Hún segir að niðurstaða úr þeirri könnun muni liggja fyrir á næstu dögum og telur Sólveig mjög líklegt að samþykkt verði að fara í aðgerðir.

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari hefur ekki boðað samningsaðila til fundar og segir Sólveig að sáttafundur verði ekki boðaður nema eitthvað breytist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert