EncroChat-gögnin nothæf fyrir íslenskum dómstólum

Sakborningar í málinu nýttu sér meðal annars EncroChat-kerfið til að …
Sakborningar í málinu nýttu sér meðal annars EncroChat-kerfið til að skipuleggja innflutning á amfetamínvökva. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gögn sem bárust íslenskum löggæsluyfirvöldum frá Europol úr dulsímakerfinu EncroChat eru hæf til sakfellingar þrátt fyrir að öflun þeirra hafi ekki verið heimiluð af íslenskum dómstólum og að þau hafi verið sótt með innbroti erlendra löggæsluyfirvalda í kerfið.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum Hæstaréttar í saltdreifaramálinu svokallaða.

Tveir af fjórum sem sakfelldir voru í málinu óskuðu eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Það voru þeir Guðlaugur Agnar Guðmundsson og Halldór Margeir Ólafsson. Þeir byggðu beiðni sína meðal annars á því að dómurinn væri rangur að formi til og að málsmeðferð fyrir Landsrétti hefði verið stórlega ábótavant.

Má notast við rafræn gögn frá erlendum yfirvöldum?

Tvímenningarnir gerðu athugasemdir við notkun á svo­kölluðum EncroChat-gögn­um, sem var sam­skipta­for­rit sem var mikið notað í und­ir­heim­un­um, sem sak­fell­ing þeirra hafi m.a. verið reist á. Töldu þeir að Hæstiréttur þyrfti að taka afstöðu til þess hvort EncroChat-gögnin væru lögð til grundvallar sakfellingu.

Sagði í áfrýjunarbeiðni Halldórs að hann teldi að gögnin væru ónot­hæf sem sönn­un­ar­gögn í saka­máli enda liggi ekk­ert fyr­ir um upp­runa þeirra, vörsl­ur, hvernig ör­yggi þeirra hafi verið tryggt og þeim miðlað.

Komust í „innsta kjarna“ skipu­lagðra glæpa­hópa

Í dómi Hæstaréttar, sem féll í gær, kemur fram að upphaf rannsóknarinnar hafi mátt rekja til rafrænna gagna sem bárust frá Europol til íslenskra löggæsluyfirvalda í júlí 2020. Höfðu fulltrúar hjá frönsku og hollensku lögreglunni náð að hakka sig inn í kerfið og komist yfir milljónir skilaboða sem sýndu samskipti glæpahópa. Sagði lögreglan á þeim tíma að um 60 þúsund notendur hefðu verið að kerfinu.

Í kjölfarið réðst lögreglan víða um Evrópu í hundrað handtökur. Sagði Wil van Gem­ert, aðstoðarfor­stjóri Europol, við það tækifæri að aðgerðin hefði gert lögreglu kleift að „kom­ast í innsta kjarna“ skipu­lagðra glæpa­hópa.

Fram kemur í dóminum að gögnin hafi borist til Íslands í gegnum samskiptakerfi Europol sem nefnist Siena. Var gagnanna aflað á grundvelli úrskurðar undirréttar í borginni Lille þannig að lögreglan fékk aðgang að netþjónum í Frakklandi sem þjónustu dulkóðuðu, rafrænu samskiptin sem fóru fram á EncroChat. Kom lögreglan einnig fyrir búnaði sem afkóðaði samskiptin og afritaði þau.

Var notendum EncroChat boðið að kaupa sérútbúna síma til þess að nota með forritinu. Þá hafi notendur getað eytt samskiptum sem fóru í gegnum kerfið.

Þá kemur fram að löggæsluyfirvöld í Evrópu hafi lengi grunað að kerfið væri einkum notað til samskipta í tengslum við skipulagða brotastarfsemi. Ekki er enn vitað hver rekstraraðili EncroChat-kerfisins var, en hann lokaði því 13. júní og sendi notendum orðsendingu um að ekki væri lengur hægt að tryggja öryggi gagnanna.

Samskipti á íslensku, ensku og hebresku

Gögnin sem bárust til Íslands voru í skrá sem geymdi afrit af samskiptum milli notenda með nöfnunum Nuclearfork, Residentkiller, Sentientstream, Neptun og Beigepanda og voru á tímabilinu mars til júní 2020.

Samskiptin voru ýmist á íslensku, ensku eða hebresku. Þau vörðuðu meðal annars innflutning til Íslands á amfetamínvökva földum í „prófílum“ á saltdreifara sem fluttur hafði verið á tilgreindan sveitabæ, undirbúning, öflun búnaðar og leiðbeiningar um hvernig unnt væri að ná vökvanum úr saltdreifaranum og framleiða fíkniefni. 

Síðar bárust löggæsluyfirvöldum frekari gögn sem voru ljósmyndir, rituð samskipti, staðsetningar, upplýsingar um tengiliði, símtalaskrár og minnispunktar. Þau voru auðkennd sem EMMA95.

Heimild til að nota gögnin í íslenskum málum

Árið 2021 óskuðu löggæsluyfirvöld hér á landi eftir því við frönsk yfirvöld að fá formlega heimild til að nota gögnin í sakamálum á Íslandi. Var þar meðal annars vísað til notendanna Nuclearfork og Residentkiller, en saksóknari byggir á því að það séu nöfn Guðlaugs og Halldórs.

Í svari frá frönskum rannsóknardómara kom fram að heimildin ætti við sérhverja rannsókn sem miðaði að dómsmeðferð, saksókn og rannsóknar- eða dómsúrskurði á vegum íslenskra yfirvalda.

Franskir lögreglumenn leggja á ráðin um eina fjölmargra athafna aðgerðarinnar …
Franskir lögreglumenn leggja á ráðin um eina fjölmargra athafna aðgerðarinnar „Emma95“. Frökkum tókst að smíða hugbúnað sem kom lögreglu þar inn fyrir helgustu vé EncroChat-dulsímakerfisins sem 60.000 manns notuðu. Ljósmynd/Franska lögreglan

Ekki nákvæmar upplýsingar, en nægjanlegar

Í dómi sínum vísaði Hæstiréttur til þess að ekki réði úrslitum hvort öflun gagnanna hefði verið heimiluð af dómstólum hér á landi. Engu að síður þyrfti að taka til skoðunar hvort gagnanna hefði verið aflað með þeim hætti að þau teldust lögmæt sönnunargögn í sakamáli hér á landi.

Telur Hæstiréttur að þó að ekki liggi fyrir nákvæmar upplýsingar um hvernig staðið var að öflun gagnanna liggi nægjanlega ljóst fyrir að þeim var aflað af lögreglu í Frakklandi á ákveðnu tímabili eftir úrskurð dómara.

Þá tekur Hæstiréttur fram að ekki liggi fyrir hvort heimilda til að komast yfir gögnin hafi verið aflað til rannsóknar tiltekins eða tiltekinna refsiverðra verknaða, en hins vegar sé nægjanlega upplýst að samskiptakerfið var að stórum hluta notað í samskiptum glæpahópa. Þá hafi ekkert komið fram sem bendi til að þeirra hafi verið aflað í andstöðu við frönsk lög og öflun þeirra sæti ekki endurskoðunar íslenskra dómstóla í ljósi gagnkvæmra þjóðréttarskuldbindinga ríkjanna tveggja.

Fordæmi frá Noregi og öðrum Norðurlöndum

Hæstiréttur vísar einnig til þess að Frakkland sé hluti að mannréttindasáttmála Evrópu og þó mismunandi lög séu milli landa um öflun samtala og rafrænna samskipta þá verði að ganga út frá því að gætt hafi verið þess að öflun gagnanna hafi rúmast innan þeirra marka sem mannréttindasáttmálinn segir til um.

Þá er einnig talið mikilvægt að gagnanna var ekki aflað að frumkvæði íslenskra löggæsluyfirvalda og því augljóslega ekki ætlunin að komast fram hjá ákvæðum íslenskra laga með rannsóknaraðgerðinni. Þá séu sambærileg gögn til skoðunar og hafa verið tekin fyrir í dómstólum annarra Norðurlanda. Hæstiréttur Noregs hafi meðal annars talið gagnanna aflað með lögmætum hætti.

Sakfelling byggði ekki eingöngu á gögnunum

Var það niðurstaða Hæstaréttar að framlagning gagnanna væri ekki talin fela í sér að brotið hefði verið á rétti Guðlaugs og Halldórs til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt stjórnarskrá Íslands og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Vísaði Hæstiréttur til þess að þó engin skrifleg fyrirmæli hafi legið fyrir um hvernig gögnin yrðu rannsökuð eða nýtt lægju fyrir upplýsingar um uppruna gagnanna, tæknilegt eðli þeirra og greint hafi verið frá mögulegum vafaatriðum. Þá hefðu engir annmarkar verið á aðferð við sönnunarmat í dómi Landsréttar hvað varðar mat á áreiðanleika og nákvæmni gagnanna.

Hæstiréttur tekur einnig fram að sakfelling þeirra Guðlaugs og Halldórs hafi ekki eingöngu verið reist á EncroChat-gögnunum, eða að þeim hafi verið gefið of mikið vægi við sönnunarmat. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að framlagning gagnanna, notkun þeirra við sönnunarmat, aðferð við mat á sönnunargildi og það vægi sem þau fengu við heildarmat á sekt í málinu hafi ekki brotið á rétti þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert