Grindvísku hjónin Steingrímur Kjartansson og Grachille Baligod munu sennilega óska eftir því að ríkið kaupi íbúðarhúsnæði sitt, en þar hefur Steingrímur búið í rúmlega fjörutíu ár.
Steingrímur flutti fyrst í húsið með foreldrum sínum árið 1978 og keypti síðan húsið af móður sinni árið 2004, en nú flytja hjónin úr Grindavík og munu að líkindum óska eftir því að ríkið kaupi sig út.
Þegar blaðamaður mbl.is ræddi við Steingrím í gær voru hjónin að pakka saman eigum sínum.
„Við erum að taka það mesta. Við erum að bíða eftir að þetta frumvarp klárist – hvað verður ákveðið. Í framhaldinu munum við örugglega óska eftir því að vera greidd út og svo ætla ég bara að sjá til,“ segir Steingrímur og á þar við frumvarp um kaup ríkisins á íbúðarhúsnæði í Grindavík.
Steingrímur er háseti hjá Vísi og Grachille er starfsmaður Bláa lónsins. Hjónin dvelja nú í leiguhúsnæði í eigu frænda Steingríms og munu gera það næsta árið.
Eruð þið búin að ákveða hvort þið ætlið að búa áfram hérna í Grindavík?
„Ekki fyrr en að hlutir lagast þá á nýtt. En mér finnst samt mjög mikilvægt, þó ríkið kaupi okkur út, að okkur sé gefinn séns að hugsa um eignirnar sjálf. Vegna þess að við vitum af sögum annars staðar frá – að eignir sem ríkið á, það vill bara gleymast að hugsa um þetta. Þá er þetta orðið ónýtt og verðlaust,“ svarar hann.
Hann segir aftur á móti að það sé sáralítið um skemmdir á húsnæði þeirra hjóna.
Spurður hvort síðustu misseri hafi verið erfið svarar Steingrímur: „Fjölskyldan er góð, þá er ég bara sáttur.“
„Ég kem aftur, ef aðstæður bjóða upp á það,“ segir hann en bendir á að Grachille sé að miklu leyti sáttari í Njarðvík.
Hann gerir ráð fyrir að ástandið verði viðvarandi í nokkur ár og þorir því ekki að fullyrða hversu langt sé þar til hann vilji flytja aftur í bæinn.
Fleiri Grindvíkingar hafa undanfarna daga gefið sig á tal við blaðamenn og ljósmyndara mbl.is í bænum, sem vinna eins og áður að því að skrásetja afleiðingar þessara gríðarlegu náttúruhamfara.
Hamfara sem forsætisráðherra hefur sagt fela í sér stærstu áskoranir íslensks samfélags frá stofnun lýðveldisins.
Þær áskoranir fara ekki á milli mála þegar bærinn er heimsóttur. Bæði í því sem þar má sjá, en ekki síður í því sem ekki er að sjá. Samfélag nærri fjögur þúsund manna, nú á bak og burt.
„Heimili yfirgefið,“ stendur ritað á blað í glugga íbúðarhúss. Orð sem gætu allt eins átt við um allan bæinn.