Myndskeið: 60-70 manns við slökkvistarf

„Þetta lítur miklu betur út en fyrir tveimur tímum,“ segir Eyþór Leifsson slökkviliðsvarðstjóri sem stýrir aðgerðum á vettvangi brunans í Fellsmúla. Kveður hann slökkvilið hafa ráðið niðurlögum eldsins að mestu leyti en þó nokkur vinna sé þó eftir við að slökkva í glæðum og sinna öðrum öryggisráðstöfunum.

Engin slys hafa orðið á fólki í brunanum enda ströngustu öryggisreglum fylgt að sögn Eyþórs sem aðspurður segist ekkert geta sagt um eldsupptök að svo búnu. „Við fengum bara tilkynningu skömmu fyrir klukkan sex og vitum ekkert,“ segir hann.

Þverveggur torveldaði slökkvistarf

„Við byrjuðum að sækja [að eldinum] úr báðum áttum, bæði neðan að og ofan frá. Svo kemur það í ljós að það er þverveggur í miðju bilinu sem gerði slökkvistarfið erfiðara hérna megin frá,“ segir Eyþór sem er staddur sunnan við atvinnuhúsnæðið sem brann.

Segir hann um 60 til 70 manna lið hafa barist við eldinn og áfram verði unnið á vettvangi þar til allar glæður hafi verið slökktar og hreinsað til eftir slökkvistarfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka