Slökkvistarf er enn í fullum gangi í iðnaðarhúsnæðinu í Fellsmúla.
Eldurinn hefur breiðst út og náð inn að dekkjalager N1. Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri segir það vera orsök mikils dökks reyks sem stígur nú upp úr húsinu.
Slökkviliðið er með mannskap á þakinu til þess að verja Fellsmúla 26, gamla Hreyfilshúsið.
Það er hærri byggingin sem liggur sunnan við húsnæðið og samsíða Miklubraut.
Að sögn Jóns Viðars er ekki kominn eldur í fyrirtækjarými á neðri hæðinni. Eldurinn breiðist aðallega út á efri hæðinni þar sem dekkjalagerinn er.
„Það er erfitt að berjast við þennan eld. Við þurfum að sækja djúpt inn í húsnæðið en erum að reyna að taka slökkviliðsstarfið að utan. Þannig erum við ekki að senda menn inn í neina hættu,“ segir Jón Viðar.
Upptök eldsins eru ekki komin í ljós.