Myndskeið: Slökkvistarf fram á nótt

„Eins og við horfum á þetta núna þá virðist þetta plan sem við lögðum upp með vera að skila árangri,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðisstjóri á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is á vettvangi stórbrunans í Fellsmúla sem slökkvilið hefur nú barist við síðan á sjötta tímanum í kvöld.

Segir Jón Viðar töluverðan eld þó inni í húsinu enn þá þótt mikið hafi unnist í slökkvistarfinu síðan hálftíma fyrir viðtalið þegar eldhafið var sýnu meira.

„Við erum komin með tvo körfubíla á staðinn og svo erum við að beita froðu líka sem á mjög vel við þegar um dekkjabruna er að ræða,“ segir hann en hjólbarðalager er í húsinu austanverðu.

Þakið hrunið þar sem brennur

Brunahólf hússins segir Jón Viðar hafa skilað miklu, eldurinn logi í tveimur ystu bilunum, að sunnanverðu, en töluverður reykur hafi borist um hin bilin fjögur þótt þar hafi ekki komið upp eldur.

Hann segir ekkert vitað enn um neðri hæð Slippfélagsins og húsnæðisins við hlið þess.

„Við höfum ekki séð nein reykjarmerki þar inni,“ segir Jón Viðar.

Töluverðan tíma muni taka að fullslökkva eldinn. Þak bilanna tveggja, sem eldur logar í, sé hrunið og slökkvistarf muni standa fram eftir kvöldi, til miðnættis hið minnsta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka