Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir ganga ágætlega að ná tökum á eldinum sem upp kom í Fellsmúla á sjötta tímanum.
Fyrst var greint frá eldinum á mbl.is fyrir rúmri klukkustund.
„Við teljum okkur vera búin að ná utan um eldinn þannig að hann dreifist ekki í önnur bil,” segir Jón Viðar í samtali við mbl.is á vettvangi.
„Það er töluverður eldur í þakinu sem slökkviliðið reynir nú að ná tökum á. Það skýrir þennan mikla reyk sem er að koma út,“ segir Jón Viðar. Verið er að ráðast að eldinum austan og vestan megin við dekkjaverkstæði N1.
Spurður hvort eldurinn sé búinn að dreifa sér í önnur húsnæði segir Jón Viðar tvö bil í suðurendanum vera undir. Ekki er búið að sjá eld fara í önnur bil.
Um 25 manns eru að störfum á vettvangi.
„Við erum einnig búin að hringja út menn á frívakt til að manna stöðvarnar. Þeir eru þá einnig tilbúnir að koma á vettvang ef til þess kemur.“
Jón Viðar kveðst ekki geta sagt til um hve slökkviliðsstarf muni standa lengi en hann gerir ráð fyrir einhverjum klukkutímum í viðbót.