Óbyggðanefnd gerir engar kröfur

Þórdís hefur f.h. ríkisins gert kröfu um nær allar eyjar …
Þórdís hefur f.h. ríkisins gert kröfu um nær allar eyjar og sker innan landhelgi Íslands. Samsett mynd/mbl.is

Óbyggðanefnd gerir engar kröfur um þjóðlendur, heldur er nefndin óháð úrskurðarnefnd. Krafa um þjóðlendur á „svæði 12“, eyjar og sker, eru því gerðar af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkisins.

Sigmar Aron Ómarsson, framkvæmdastjóri Óbyggðanefndar, segir í samtali við mbl.is að 2. febrúar á þessu ári hafi krafa fjármála og efnahagsráðuneytisins komið til nefndarinnar og í kjölfarið hafi nefndin birt þær kröfur á öllum helstu miðlum.

„Óbyggðanefnd hefur í sjálfu sér enga aðkomu að kröfugerðinni sem slíkri heldur hefur það hlutverk að leysa úr kröfunum þegar þær eru komnar fram,“ segir Sigmar.

Sigmar segir að reglulega hafi komið upp sá misskilningur að Óbyggðanefnd geri kröfurnar, meðal annars í umfjöllun fjölmiðla, sem er ekki rétt. 

Ráðuneytið upplýst á fyrri hluta síðasta árs

Eins og fjallað hefur verið um þá krafðist fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkisins, allra eyja sem mynda Vestmannaeyjar og Heimaeyjar að hluta. Á Heimaey var til dæmis krafist þess að allt nýtt landsvæði sem myndaðist í eyjagosinu árið 1973, Heimaklettur og Stórhöfði yrðu að þjóðlendu.

Þá var einnig krafist þess að um það bil 50% af Grímsey yrði að þjóðlendu. Hafa bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum og Akureyri lýst yfir furðu og óánægju með þessar kröfur.

Sigmar útskýrir að þann 19. apríl 2023 hafi Óbyggðanefnd sent fjármála- og efnahagsráðuneytinu tilkynningu um að nú hygðist nefndin taka til meðferðar „svæði 12“. Það ráðuneyti fer með forræði á kröfum ríkisins um þjóðlendur.

„Landinu er skipt upp í svæði og það voru upphaflega 12 svæði. Svo var sumum þeirra skipt upp í minni svæði, þannig þetta urðu 17 svæði. Eyjar eru sker eru sem sagt sautjánda og síðasta svæðið,“ segir Sigmar.

Nefndin er sjálfstæð úrskurðarnefnd

Sigmar útskýrir að kröfugerðin um allar þær eyjur og sker sem ríkið krefst að verði að þjóðlendu komi úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Hefur því þetta tiltekna svæði verið á borði ráðuneytisins í tæplega ár og kröfugerðin mótuð af ráðuneytinu á þeim tíma.

„Óbyggðanefnd er sjálfstæð úrskurðarnefnd sem hefur það hlutverk að úrskurða um kröfur ríkisins og þá annarra. Þannig að nefndin fær kröfurnar sendar,“ segir hann og útskýrir að nefndin kynni svo kröfugerðina með því að senda erindið til sveitarfélaga, fjölmiðla og Lögbirtings.

Tilgangur Óbyggðanefndar er að úrskurða um mörk þjóðlendna og eignarlanda innan landhelgi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert