Ómögulegt að ná einhug um frumvarpið

Þórdís Kolbrún mælti fyrir frumvarpi til laga um kaup á …
Þórdís Kolbrún mælti fyrir frumvarpi til laga um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík á Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki verður hægt að horfa til allra þeirra fjögur hundruð umsagna sem bárust í samráðsgátt um frumvarp til laga um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Sum ákvæði má þó skýra betur, einhverjum umsögnum verður brugðist við en öðrum ekki.  

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, mælti í dag fyrir frumvarpi til laga um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Markmið frumvarpsins er að verja fjárhag og velferð íbúa í Grindavíkurbæ vegna þeirrar óvissu sem skapast hefur þar á undanförnum mánuðum vegna jarðhræringa og eldgossins norðan Grindavíkur þar sem gaus í janúar. 

Ómögulegt að bæta allt tjón 

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, tók til máls í umræðu um frumvarpið þar sem hann velti því fyrir sér hvort raunveruleg sátt ríki um frumvarpið. Var það sérstaklega í ljósi þess að um fjögur hundruð umsagnir bárust um frumvarpið í samráðsgátt, en í ljósi þess kvaðst hann ekki upplifa mikla sátt.

Þórdís svaraði því þá til að hún væri fullmeðvituð um að mál sem þessi væru gríðarlega flókin og viðkvæm. Fólk hefði orðið fyrir áfalli og væri ekki einungis með fjárhagsáhyggjur heldur einnig að syrgja sinn griðastað í sínu samfélagi og lífið sem þau sáu fyrir sér um ókomna tíð.

Hún kvaðst vera fullmeðvituð um að það yrðu aldrei allir á eitt sáttir með það sem lagt hefur verið fram, hins vegar sagðist hún ósammála því að almennt væri ekki ánægja eða skilningur með frumvarpið, eða á því að markmiðið sem sett var fram í upphafi væri ekki náð.

„Ég hef allan tímann verið mjög heiðarleg með það að við náum ekki að bæta allt það tjón sem þetta fólk hefur orðið fyrir. Því hef ég ekki lofað heldur verið mjög ærlega í því að það sé óraunhæft. En þessi rammi er gríðarlega mikilvægur fyrir þetta fólk.“

Margar umsóknir samkynja 

Guðbrandur óskaði jafnframt eftir skýringum á því hvernig væri verið að koma til móts við þá sem lögðu fram umsagnir í frumvarpið. 

„Það bárust sannarlega margar umsagnir en þær voru nokkuð samkynja,“ sagði Þórdís þá auk þess sem hún benti á 5. kafla frumvarpsins þar sem er að finna yfirlit yfir bæði umsagnir og með hvaða hætti brugðist er við þeim. 

Þórdís tók þó sem dæmi að sérstaklega hafi verið bent á að dánarbú féllu ekki undir frumvarpið, eða mengi þessa frumvarps, enda dánarbú lögaðili en lögaðilar falla ekki undir frumvarpið. Nú hefur hins vegar verið gerð undantekning á þessu hvað varðar dánarbúin sagði hún. 

Ekki hægt að verða við öllum umsögnum 

„Síðan eru umsagnir þar sem fjallað er um áhyggjur til að mynda af undanþágunni um að þú þurfir að hafa átt lögheimili í húsnæðinu til að fá það bætt,“ sagði Þórdís og útskýrði að ákvæðið hafi hugsanlega ekki verið nægilega skýrt því hugsunin hafi ávallt verið sú að komið yrði til móts við þennan hóp. 

„Slíkar undanþágur eða beiðnir verða túlkaðar nokkuð rúmt, þ.e. þar sem andi laganna nær einfaldlega fram að ganga því aðstæður fólks geta verið mismunandi.“

Þá nefndi Þórdís nokkrar þær umsagnir sem ekki verður tekið tillit til, til að mynda umsagnir um atvinnulífið, en umrætt frumvarp tekur ekki til atvinnulífsins. Aðrar umsagnir sem erfitt er að taka tillit til varðar forkaupsrétt íbúa á húsnæðinu. 

„Við erum til að mynda ekki að verða við því að forkaupsrétturinn eigi við tveimur árum eftir að atburði lýkur vegna þess að það geta verið einhver misseri eða margir áratugir og það væri ekki ábyrgt að festa það inni á þessum tímapunkti. Þannig að sum atriði erum við í raun að útskýra betur, sem er gagnlegt og við verðum þá við þeim athugasemdum með því að við skýrum það betur í frumvarpinu. Einhverju verðum við við og enn öðru ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert