Fjölskylda frá Palestínu er á leiðinni til Íslands í nótt. Þetta er önnur fjölskyldan sem íslenskum sjálfboðaliðum hefur tekist að koma af Gasa til Íslands. Um er að ræða samtals tvær konur og sex börn, en önnur fjölskyldan kom til Íslands í vikunni. Fólkið hefur hlotið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar.
Þetta segir Sema Erla Serdaroglu, stofnandi Solaris, hjálparsamtaka hælisleitenda, í samtali við mbl.is
Fimm íslenskir sjálfboðaliðar eru nú staddir í Kaíró, höfuðborg Egyptalands. Þar vinna þeir að því að koma fleiri palestínskum fjölskyldum, sem hafa hlotið alþjóðlega vernd á Íslandi, út af Gasa svæðinu og til Íslands.
Þá hefur tekist að koma tólf manns á landamæralista og búist er við að sá hópur komist út af Gasa á næstu dögum.
Sema hefur verið í Kaíró í um það bil viku ásamt hópi sjálfboðaliða. Síðan þá hefur þrotlaus vinna verið unnin segir hún við að koma þessum tólf einstaklingum á landamæralista án aðstoðar stjórnvalda.
„Tvö ungabörn yngri en eins árs, sem eru mjög vannærð, eru á listanum ásamt mæðrum sínum. Ung stelpa með alvarlegan sjúkdóm sem þarf lyf við er einnig á listanum en hún hefur ekki haft aðgang að lyfjunum sínum af augljósum ástæðum. Hún er því í mikilli lífshættu til viðbótar við að lifa við ítrekuð fjöldamorð á Rafah-landamærasvæðinu,“ segir Sema.
Þá segir Sema einnig að illa særður 17 ára strákur, sem hefur tvisvar lent í árás Ísraelhers og þarf að komast undir læknishendur sem allra fyrst, sé einnig á listanum ásamt eldri manni sem er illa haldinn af krabbameini.
Alþjóðlega fólksflutningastofnunin hefur í samstarfi við sjálfboðaliðanna aðstoðað fólkið við að fá farmiða til Íslands.
Engar upplýsingar hafa borist hópnum frá utanríkisráðuneytinu en þrír fulltrúar ráðuneytisins eru í Kaíró. Ferðin er liður í undirbúningi aðgerða ráðuneytisins til aðstoðar við fólk á Gasasvæðinu með dvalarleyfi á Íslandi samkvæmt ráðuneytinu.
„Ég hef ekki hugmynd um hver staðan er hjá ríkisstjórn Íslands eða utanríkisráðuneytinu. Það hafa verið sendar ítrekaðar beiðnir til utanríkisráðuneytisins og annarra ráðuneyta. Þá hefur einnig verið reynt að ná sambandi við ráðherra í ríkisstjórn en við fáum engin svör.“
Hópurinn hefur óskað eftir því að komast í samband við fulltrúa utanríkisráðuneytisins til þess að fá svör um hvað þau eru að gera og hvað þau ætli að gera.
„Við þurfum ekki að vera hér í sjálfboðaliðastarfi fyrir utanríkisráðuneytið ef þau ætla að sinna sínum skyldum en við sjáum ekkert sem bendi til þess að þau ætli að gera það,“ bætir Sema við.
Spurð um næstu skref segir Sema allt taka langan tíma á svæðinu.
„Við erum að vinna í aðstæðum sem er varla hægt að lýsa. Þessir listar, yfir fólk sem hefur leyfi til að fara yfir landamærin, eru gefnir út reglulega. Við gerum ráð fyrir því að þessir tólf einstaklingar komist vonandi yfir landamærin á næstu 4-7 dögum. Á meðan þess er beðið er unnið að því að koma fleirum á listann.“
Hópurinn mun halda ótrauður áfram að aðstoða þá rúmlega 100 einstaklinga á Gasa, sem hafa hlotið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli laga um útlendinga og sameiningu fjölskyldna, við að komast heim til Íslands.