Segir litlu skipta um nokkra milljarða til viðbótar

Guðbrandur Einarsson var meðal þeirra sem tók til máls í …
Guðbrandur Einarsson var meðal þeirra sem tók til máls í fyrstu umræðu um frumvarpið. Samsett mynd

Alþingismenn telja mikilvægt að frumvarp til laga um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík fari snarlega í gegnum þingið en í senn að frumvarpið verði unnið gaumgæfilega til að gæta að sanngirni en líka til að gæta þess að Grindvíkingar komi ekki verr út úr því að selja húsnæði sitt en ella.

Fyrsta umræða um frumvarp til laga um kaup á íbúðar­hús­næði í Grinda­vík fór fram á Alþingi í dag um leið og Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, hafði mælt fyrir frumvarpinu. 

Alls tóku níu alþingismenn til máls um frumvarpið í fyrstu umræðu og er óhætt að segja að almennt hafi ríkt nokkur sátt um frumvarpið og framgöngu þess.

Þrátt fyrir það voru nokkur atriði sem þingmennirnir vöktu athygli á og lögðu áherslu á að yrðu skoðuð til hlítar í efnahags- og viðskiptanefnd. 

Vilja fá að nota húsin sem sumarhús

Bjarkey Ol­sen Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna, var meðal þeirra sem tók til máls, en hún vakti athygli á vangaveltum Grindvíkinga sem snúa að viðhaldi á fasteignunum.

Sagði hún einhverja hafa komið að máli við sig og spurt hvort nota mætti húsnæðið áfram sem sumarhús, hvort slá mætti blettinn og hvað mætti gera til að halda húsinu við. 

„Félagið hlýtur að þurfa að vera með lágmarks viðhald á húsunum sjálfum, en ég trúi því ekki að fólki yrði hent út af blettinum sínum kjósi þau að slá hann,“ sagði Bjarkey og vísaði til fasteignafélagsins Þórkötlu sem mun fara með framkvæmd húsnæðiskaupanna og umsýsla þess eignasafns sem verður til. 

Mismunandi staða fólks 

Bjarkey vakti jafnframt máls á stöðu fyrstu kaupenda, fólks sem væri nýbúið að kaupa sína fyrstu eign og þyrfti nú jafnvel að gera það aftur á sömu forsendum. 

Eins vakti Bjarkey máls á stöðu þeirra sem voru að byggja en ekki flutt inn og þeirra sem voru búnir að kaupa en ekki búnir að fá afhent. 

Það voru fleiri en Bjarkey sem veltu fyrir sér mismunandi stöðu fólks eftir frumvarpinu. Guðbrand­ur Ein­ars­son, þingmaður Viðreisn­ar, var einn þeirra en hann nefndi fólk sem rekur gistiheimili og býr jafnvel á sama stað. Sagði hann þessa einstaklinga falla milli skips og bryggju í frumvarpinu.  

Gífurlegt fjárhagstap 

Guðbrandur sagði fyrirtæki í Grindavík jafnframt falla milli skips og bryggju því einhver þeirra hefðu fjárfest í húsnæði fyrir starfsmenn sína til að búa til góða umgjörð um þá, en nú sitji fyrirtækin eftir með fjölda íbúða sem ekki fást bættar. 

„Þegar við erum að leggja út í aðgerð sem er jafn kostnaðarsöm og þessi aðgerð þá skiptir litlu hvort við bætum við einhverjum milljörðum til viðbótar í mínum huga.“

Þá tók Gísli Rafn Ólafs­son, þingmaður Pírata, til máls en hann gagnrýndi að einstaklingur þyrfti að hafa verið með lögheimili í húsinu til að fá það bætt. Sagði hann þetta mikið fjárhagslegt tap fyrir þá sem ekki búa í eigin húsnæði af hinum ýmsu ástæðum. 

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólks­ins, fór yfir þær umsagnir við frumvarpið þar sem óskað var eftir veðflutningi, sagði hún að ekki hefði verið hægt að verða við því í frumvarpinu, en engu að síður væri það eitthvað sem hægt væri að útfæra í samræmi við lánveitendur. 

Þegar hafði verið tekið tillit til margs

Í frumvarpinu hafði þegar verið tekið tillit til einhverra þeirra ábendinga sem þingmennirnir áréttuðu í ræðum sínum áður en mælt var fyrir frumvarpinu á Alþingi, en umrædd atriði eru meðal þeirra sem komu fram í þeim rúmlega þrjú hundruð umsögnum sem bárust með frumvarpinu. 

Sem dæmi má nefna ákvæðið um að einstaklingur þurfi að hafa verið með lögheimili í húsnæðinu til að fá það bætt, en Þórdís Kolbrún sagði í andsvari við framsöguræðu sinni að aðstæður fólks væru mismunandi og að undanþágur og beiðnir hvað þetta varðar yrðu túlkaðar rúmt, enda hefði það ávallt verið hugsunin að koma til móts við þennan hóp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert