Sjö gistu í fangaklefa

Lögreglan þurfti að bregðast við þó nokkrum tilkynningum sem bárust …
Lögreglan þurfti að bregðast við þó nokkrum tilkynningum sem bárust í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gær og nótt en sjö gistu í fangaklefa í nótt vegna mismunandi brota, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Var töluvert um einstaklinga í annarlegu ástandi.

Úr miðbænum barst tilkynning um einstakling sem var ekki að valda sér sökum ölvunar. Var viðkomandi vistaður í fangaklefa sökum ástands. 

Lögreglu barst tilkynning um slagsmál í miðbænum en allir voru farnir af vettvangi þegar lögreglu bar að. 

Ökumaður bifreiðar var handtekinn vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna. Sá var færður á lögreglustöð en var laus úr haldi að blóðsýnatöku lokinni.

Tilkynnt var um þjófnað í verslun í hverfi 103, þjófnað í verslun í hverfi 108 og innbrot í heimahús í hverfi 108. Meintur innbrotsþjófur var handtekinn skammt frá vettvangi og vistaður í fangaklefa.

Þá hafði lögreglan á lögreglustöð 2, sem fer með mál Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Álftaness, í ýmsu að snúast og var töluvert af útköllum sem voru tengd ölvun.

Ekki er þeirra þó getið í dagbókinni.

Tilkynnt var um líkamsárás í Kópavogi. Einn var handtekinn og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert