Kvikan nær svipaðri stöðu og fyrir síðasta gos um mánaðamót

Ein vika er liðin frá eldgosinu á Reykjanesskaga.
Ein vika er liðin frá eldgosinu á Reykjanesskaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líkanreikningar benda til að kvika nái svipaðri stöðu og fyrir síðasta eldgos á Reykjanesskaganum í lok febrúar eða byrjun mars.

Þetta kemur fram í tilkynningu á Veðurstofu Íslands en þar segir að landris á Svartsengissvæðinu haldi áfram og er mynstur og hraði þess mjög svipað því sem það var eftir síðustu kvikuhlaup þaðan.

„Líkanreikningar byggðar á GPS gögnum frá goslokum 9. febrúar sýna að kvikusöfnun þar til í gær 14. febrúar sé um 2-3 milljón rúmmetrar. Áætlað var að þegar eldgos hófst 8. febrúar hafi um 10 milljón rúmmetrar hlaupið undan Svartsengi yfir í Sundhnúkagígaröðina.

Haldi kvikusöfnun áfram með sama hraða mun magn kviku ná 10 milljón rúmmetrum í lok febrúar eða byrjun mars, en þá má gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi og eldgosi aukist verulega. Þessir líkanreikningar eru byggðir á GPS gögnum en verða uppfærðir þegar ný gervitunglagögn berast,“ segir ennfremur í tilkynningunni. 

Skjálftavirkni á svæðinu norðan Grindavíkur er áfram væg en frá því á mánudaginn 12. febrúar hafa eingöngu smá skjálftar um eða undir 1,0 að stærð mælst þar.

Nýtt hættumatskort

Skjálftavirkni í vestanverðu Fagradalsfjalli heldur áfram en þar hafa um 80 smáskjálftar, um eða undir 1,5 að stærð mælst síðan 12. febrúar. Dýpi skjálftanna undir vestanverðu Fagradalsfjalli er stöðugt um 6-8 km dýpi. Áfram verður fylgst náið með þessu svæði en að svo stöddu sýna aflögunarmælingar ekki vísbendingar um kvikusöfnun.

Nýtt hættumatskort hefur verið gefið út og gildir næstu vikuna að öllu óbreyttu. Líkur á gosopnun hefur lækkað á öllum svæðum kortsins en líkur á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum innan Grindavíkur eru enn taldar miklar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert