Tæknideild írsku lögreglunnar ásamt réttarmeinafræðingum munu í dag rannsaka svæðið sem girt var af í gær vegna leitarinnar að Jóni Þresti Jónssyni.
Fimm ár eru liðin síðan hann hvarf sporlaust í Dublin, höfuðborg Írlands.
Jón Þröstur yfirgaf Bonnington-hótelið þar sem hann gisti klukkan 11 þann 9. febrúar 2019. Síðast sást hann á gangi fram hjá inngangi Highfield-sjúkrahússins í borginni.
Svæðið sem girt var af í gær er í almenningsgarðinum Santry Demense, sem er um 3,5 kílómetrum frá staðnum þar sem síðast sást til Jóns Þrastar, að því er RTÉ greindi frá.