Uppkaup á húsnæði eina málið á dagskrá í dag

Uppkaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík er eina málið á dagskrá …
Uppkaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík er eina málið á dagskrá á þingfundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík, er eina málið á dagskrá á þingfundi í dag.

Fundurinn hefst klukkan 13.30.

Frumvarpið er 26 blaðsíður og voru drög að því birt á föstudaginn í samráðsgátt stjórnvalda. Var almenningi veitt tækifæri til að gefa umsögn fram á mánudag. Í markmiði laganna segir meðal annars:

„Markmið laga þessara er að verja fjárhag og velferð íbúa í Grindavíkurbæ í ljósi óvissuástands vegna jarðhræringa með því að gefa einstaklingum í bæjarfélaginu kost á að losna undan þeirri áhættu sem fylgir eignarhaldi íbúðarhúsnæðis í bænum.“

Húsnæðisverð myndi líklega hækka

Í frumvarpinu kemur fram mat á áhrifum eins og til dæmis áhrif á húsnæðisverð, vexti, verðbólgu og fleira. Þar kemur fram að talið sé að líklega muni húsnæðisverð hækka á landsvísu.

„Áhrifa þeirra tilfærslna sem frumvarpið leiðir til mun fyrst og fremst gæta á húsnæðismarkaði og er frumvarpið líklega til þess fallið að hækka húsnæðisverð á landsvísu. Þau áhrif leggjast við þá hækkun sem ætla má að leiði af áhrifum jarðhræringanna til þessa sem og áhrifum af greiddum bótum náttúruhamfaratrygginga,“ segir meðal annars í frumvarpinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert