„Ekki opnað hér á næstunni“

Þröstur Ingvarsson, sölustjóri hjá Slippfélaginu, var ásamt Sigurbjörgu Stefánsdóttur verslunarstjóra að skoða aðstæður á vettvangi í Fellsmúla í morgun þar sem varð stórbruni í gærkvöld.

„Ég fékk vitneskju um brunann rétt eftir klukkan 17 í gær. Þá hringdi Sigurbjörg verslunarstjóri í mig og lét mig vita að það væri kviknað í hér uppi,“ segir Þröstur við mbl.is fyrir utan verslun Slippfélagsins.

Mikilvægast að allir komust út óslasaðir

Þröstur segist hafa mætt strax á staðinn og hafi verið á vettvangi til klukkan tíu í gærkvöldi.

„Við erum núna fyrst að kanna aðstæður. Það er sterk lykt inni í húsinu og ég sé ekki fyrir mér að við séum að fara opna verslunina á næstunni,“ segir Þröstur en Slippfélagið rekur þrjár verslanir, í Fellsmúla, Skútuvogi 2 í Reykjavík og á Dalshrauni 13 í Hafnarfirði.

„Við höfum það kannski fram yfir aðra í húsinu að við erum með starfsemi á tveimur öðrum stöðum en það sem er mikilvægast er að okkar starfsfólk komst út og slasaðist ekki. Eldurinn virðist ekki hafa náð að komast inn í búðina,“ segir Þröstur.

Spurður út í tjón og skemmdir á vörum í versluninni segir Þröstur:

„Ég get bara ekki svarað því með tjónið en það eru alla veganna einhverjar vatnsskemmdir. Ég hef ekki fengið að komast inn í verslunina enda er mælt með því að við förum ekki inn fyrr en það er búið að lofta vel út úr rýminu. Svo bíðum við bara eftir mönnum frá tryggingarfélaginu sem munu taka út skemmdirnar,“ segir Þröstur en Slippfélagið er með starfsemi í tveimur bilum á jarðhæðinni í Fellsmúla.

Þröstur Ingvarsson, sölustjóri hjá Slippfélaginu og Sigurbjörg Stefánsdóttir verslunarstjóri.
Þröstur Ingvarsson, sölustjóri hjá Slippfélaginu og Sigurbjörg Stefánsdóttir verslunarstjóri. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson
Frá vettvangi í gærkvöld.
Frá vettvangi í gærkvöld. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert