Háskólinn í Reykjavík mun ekki afnema skólagjöld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.
Þar segir að rekstrartekjur skólans myndu skerðast um 1.200 milljónir á ári með því að samþykkja hugmynd háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins um aukið ríkisframlag.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur boðið skólastjórnendum sjálfstætt starfandi háskóla að skólarnir hljóti óskert fjárframlög frá ríkinu gegn afnámi skólagjalda. Listaháskóla Íslands mun fella niður skólagjöld frá og með haustinu 2024.
Í tilkynningunni segir að í ályktun frá Stúdentafélagi Háskólans í Reykjavík (SFHR) komi fram að nemendur vilji halda í sérstöðu skólans sem mörkuð var við stofnun hans fyrir 26 árum.
„Á opnum samráðsfundi nemenda HR vegna tilboðsins kom sterkt fram að nemendur í HR leggja mikið upp úr góðri aðstöðu, persónulegri kennslu, nútímalegum kennslubúnaði og framúrskarandi þjónustu við nemendur.
Við í stúdentaráði teljum ómögulegt að halda þessari sérstöðu sem nemendur í HR kjósa með svona fjárskerðingum. Sérstaða HR er að miklu leyti möguleg vegna fullnægjandi fjármögnunar,“ segir í ályktun SFHR.
Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR, segir að stjórn og stjórnendur vilji áfram geta boðið stúdentum upp á það val sem þau hafa í dag.
„Nemendum hér býðst að langstærstum hluta að stunda nám í sömu greinum við aðra skóla, en velja að koma til okkar þótt við innheimtum skólagjöld, sem eru á þessu skólaári 288 þúsund krónur á önn, og njóta þess sem HR býður. Við viljum að þeim standi það áfram til boða,“ segir Ragnhildur í tilkynningu.
Þá ítrekar hún einnig ályktun SFHR og segir mikilvægt að hlusta á nemendur.
Í tilkynningunni segir einnig að breytingarnar sem Áslaug Arna hefur kynnt þýði ekki að verið sé að auka við það fjármagn sem fer inn í háskólakerfið í heild sinni heldur er verið að breyta því hvernig kökunni er skipt.
„Þetta þýðir með öðrum orðum að heildarfjármagn til háskólanna myndi minnka um ríflega 3 milljarða króna, ef allir skólar tækju þessu boði. Það myndi koma alvarlega niður á starfsemi fleiri skóla en okkar.“