„Ég fékk símtal um hálfníuleytið í [gærmorgun] og var spurð: „Heyrðu, ert þú ekki örugglega sú sem er í Morgunblaðinu í dag?““ segir Rósa Ruth Guðmundsdóttir í samtali við blaðið en móðir Rósu, Hólmfríður Georgsdóttir, dvelur í sumarhúsi í Ölfusborgum ásamt Árna Bergmann Haukssyni eiginmanni sínum.
Þar er allþröngt um þau hjónin sem komin eru af léttasta skeiði, Hólmfríður 72 ára og Árni 67, en þeim var gert að rýma hús sitt í Grindavík í skjálftunum í nóvember.
Hólmfríður ræddi við Morgunblaðið í gær og kvaðst hvort tveggja sár og reið yfir þeim kröppu kjörum sem þeim Árna væru boðin. „Ég vil að við á þessum aldri förum að fá fast húsnæði,“ sagði hún og spurði hve lengi eldra fólki væri ætlað að bíða.
Svarið við þeirri spurningu barst í gærmorgun í símtalinu til dóttur hennar en þær mæðgur birtust á mynd í blaðinu með viðtalinu í gær sem sýnir þær faðmast af innileika.
„Ég held að þetta sért þú, ertu ekki að faðma mömmu þína?“ segir Rósa viðmælanda sinn hafa spurt sem í kjölfarið hafi kveðið upp einfaldan úrskurð: „Ég ætla ekki að hlusta á svona kjaftæði, ég bara redda þessu.“ Svo mörg voru þau orð og varð í kjölfarið ljóst að Hólmfríðar og Árna bíður íbúð í Reykjanesbæ innan skamms.
Segir Rósa móður sína hafa tekið tíðindunum sem himnasendingu. „Ég hringdi í mömmu og sagði henni frá þessu símtali, að þessi kona ætlaði ekki að taka það í mál að það væri komið svona fram við þau,“ segir Rósa og bætir því við að aðbúnaður Hólmfríðar og Árna hafi verið fyrir neðan allar hellur.
„Þau sváfu á dýnu fyrstu vikurnar, þau voru ekki einu sinni með rúm. Við vissum náttúrulega ekkert að þetta væru bara einhverjir þrjátíu fermetrar. Það er gólfhiti sem er bara á einhverjum einum punkti í húsinu og það blæs inn um allt. Það er skítakuldi þarna,“ segir Rósa af húsinu í Ölfusi sem er í eigu sveitarfélags.
„Við systkinin erum búin að vera á fullu að gera allt til að koma þeim í húsnæði sem er búið að vera erfitt,“ rifjar Rósa upp. Hólmfríður og Árni hafi þó fyrst áttað sig fyllilega á aðstæðum þegar þau komu aftur til Grindavíkur eftir rýminguna og sáu aðstæður þar. „Þau eru ekkert að fara að flytja til baka þangað, fólk eins og þau sem er heilsulítið,“ segir Rósa og leggur ríka áherslu á orð sín.
Segir hún gleði móður sinnar hafa verið ólýsanlega þegar henni bárust fréttirnar í gærmorgun. „Þakklætið er þvílíkt, ég bara grét og grét,“ segir Rósa, „mamma mín verður ekki á götunni eða í þrjátíu skítköldum fermetrum næstu mánuðina.“
Bendir hún á að kynslóð móður hennar hafi unnið baki brotnu alla ævina og ekki þekkt annan raunveruleika. „Að tapa aleigunni sem fólk hefur unnið fyrir myrkranna á milli er meira en að segja það, auðvitað er brunabótamat betra en ekkert, en hvenær verður þetta greitt út, vitum við það?“ spyr Rósa og kveður heilsu móður sinnar hafa hrakað verulega eftir rýminguna.
„Hún getur varla labbað, kona sem var svo heilsuhraust áður en þetta gerðist. Það er svakalegt hvað þetta tekur á fólk,“ segir Rósa Rhut Guðmundsdóttir að lokum, glöð og þakklát fyrir hönd Hólmfríðar móður sinnar sem kemst í leiguíbúð í mars með Árna manni sínum.