Húsnæði N1 skemmdist illa í eldsvoðanum

Húsnæði N1 við Fellsmúla, þar sem rekin er bílaþjónusta og hjólbarðaverkstæði, skemmdist illa í eldsvoðanum í gær. Sjálfvirkur brunaboði gerði stjórnstöð Securitas viðvart um reyk stuttu eftir að húsinu var lokað og snéri starfsmaður N1 sem hafði nýlega yfirgefið vinnustaðinn þá aftur á vettvang auk þess að hringja í 112 eftir aðstoð. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá N1 vegna brunans.

Þar segir jafnframt að enginn hafi verið inni í húsnæðinu þegar reyksins varð vart og öryggi starfsmanna hafi því ekki verið ógnað. Slökkviliðið mætti fljótt á staðinn ásamt lögreglu, sem afmarkaði vettvang til að tryggja öryggi vegfarenda og athafnasvæði björgunarliðsins.  

Dekk sem skemmdust verða bætt

„Um tíma var tvísýnt um hvort eldurinn myndi læsa sig í nærliggjandi hús og má telja öruggt að snarræði og útsjónarsemi slökkviliðsins hafi komið í veg fyrir að ekki fór verr. N1 vill þakka öllum sem komu að björgunarstarfinu í gærkvöldi kærlega fyrir skjót og fagleg viðbrögð. Mestu skiptir að engin slys urðu á fólki og komið var í veg fyrir að eldurinn breiddist út,“ segir í tilkynningunni. 

Þá segir jafnframt að ljóst sér að skemmdir á húsnæðinu séu miklar. Þó sé ekki hægt að meta þær að fullu fyrr en lögreglan hefur lokið rannsókn á eldsupptökum. Eldurinn takmarkaðist við húsnæði N1 en tjón varð í nærliggjandi húsnæði vegna reyks og vatns. Brunahólfun hússins og aðrar eldvarnir skiptu þar miklu máli.   

Ekki er hægt að segja til um hvenær bílaþjónusta N1 opnar aftur í húsinu fyrr en búið er að meta skemmdir. Haft verður samband við viðskiptavini sem geymdu dekk í Fellsmúlanum og þeir upplýstir um hvar þeir geti sótt dekk sín þegar það liggur fyrir. Þau dekk sem skemmdust í eldsvoðanum verða bætt, að því er fram kemur í tilkynningunni. 

Það er ljóst að skemmdir á húsinu eru miklar.
Það er ljóst að skemmdir á húsinu eru miklar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert