„Hver ætlar að sjá um húsið mitt?“

Valgerður Ágústsdóttir og Sólný Pálsdóttir eru íbúar í Efrahópi í …
Valgerður Ágústsdóttir og Sólný Pálsdóttir eru íbúar í Efrahópi í Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valgerður Ágústsdóttir, íbúi í Efrahópi í Grindavík, segist ekki geta hugsað sér að selja eign sína á meðan óvissa ríkir um afrif hennar í meðförum ríkisins. Þá gagnrýnir hún skömm tímamörk, skilaboðsleysi frá bæjaryfirvöldum og fljótfærni í gerð frumvarps um kaup á húsnæði Grindvíkina. 

Því skorti hana forsendur til að taka upplýsta ákvörðun. „Ég get ekki hugsað mér að selja eins og drögin að frumvarpinu líta út,“ segir Valgerður. 

„Þetta er vonlaus ákvörðun að taka. Mér hefði fundist eðlilegra að leigustyrkurinn væri í lengri, þannig að maður hafi meiri tíma en til 1. júlí til að taka ákvörðun. Það er allt of stuttur tími,“ segir Valgerður. 

Íbúar í Hópshverfi voru að flytja eignir sínar úr húsi.
Íbúar í Hópshverfi voru að flytja eignir sínar úr húsi. Kristinn Magnússon

Skilur eftir húsgögn 

Valgerður var í því að pakka saman búslóðinni og tjáði blaðamanni að hún hefði hug á því að skilja eftir húsgögn til að geta komið að vistlegu heimili ef henni gefst kostur á að hafa þar afdrep. Með henni var Sólný Pálsdóttir móðursystir hennar úr næstu götu. Var hún í sömu erindagjörðum þar en var í heimsókn hjá frænku sinni. Þær sögðust þakklátar fyrir að fá blaðamann í heimsókn til að geta komið skoðunum sínum á framfæri. 

Valgerður telur ýmislegt flumbrulegt í aðdraganda frumvarps ríkisstjórnarinnar um uppkaup á húsnæði í Grindavík.

Auk skammra tímamarka til ákvörðunar spyr hún sig að því hvers vegna einungis voru gefnir tveir til þrír dagar til umsagna um frumvarpið eftir að það var kynnt föstudaginn 9. febrúar á föstudegi. Umsagnarferli lauk á mánudegi. 

Í því er m.a. tiltekið að greitt verði 95% af brunabótamati fyrir eignirnar, fólk hafi til 1. júlí til að ákveða sig og að það hafi forkaupsrétt í tvö ár. 

„Eins og með þessi tvö ár. Af hverju er þetta ekki bara í tvö ár eftir að atburðurinn er liðinn?,“ spyr Valgerður.

Valgerður Ágústsdóttir
Valgerður Ágústsdóttir Kristinn Magnússon

Gæti neyðst til að selja 

Hún segir tilfinninguna núna vera þá að hún muni ekki selja. 

„Hver á að sjá um húsið mitt? Ég treysti því ekki að einhver muni hugsa um húsið mitt á meðan. Hér líður mér best og ég get ekki hugsað mér að geta ekki komið hingað. Hér næ ég andanum.“

Hún telur m.a. að miklu muni breyta ef hún fær að koma og sinna heimilinu þó ríkið hafi keypt það af henni.

En er það ekki stór ákvörðun að ákveða að selja ekki? Sérstaklega ef það verður svo engin þjónusta, engin skóli og annað tilheyrandi?

„Jú þó ég segist ekki ætla að selja þá gæti ég neyðst til þess. En ég bið einmitt um að bæjarstjórnin skýri það hvað verður um bæinn. Mun ég hafa einhverja þjónustu?,“ spyr Valgerður.

Erum að missa mun meira en bara húsin

Með Valgerði er Sólný frænka hennar sem einnig býr í Efrahópi. Hún hlustar á frænku sína og tekur heilshugar undir áhyggjur hennar.

Staða hennar er ólík Valgerðar. Hús hennar er gjörónýtt eftir jarðhræringarnar, þó það sé einungis nokkrum tugum metra frá húsi frænku sinnar. Hún býr í götunni þar sem hraun fór yfir hús.

„Mér finnst gleymast að í okkar litla samfélagi erum við að missa margt annað en húsið okkar. Við erum að missa sjálfstæði og börnin okkar eru að missa sjálfstæði. Þau hafa ekki lengur sama aðgengi að íþróttaaðstöðu. Fótboltahúsið var t.d. alltaf opið og strákarnir fóru alltaf þangað á morgnana með nesti og voru til níu á kvöldin. Við erum því að missa svo miklu meira en heimilin okkar. Hér var menningarstarf, kirkjustarf, kirkjukór og eldri borgarar sem nú eru að missa öryggi sitt. Það er meira en að segja það að missa húsið og byggja upp á nýjum stað,“ segir Sólný. 

Sólný Pálsdóttir þarf að yfirgefa heimilið þar sem hún hefur …
Sólný Pálsdóttir þarf að yfirgefa heimilið þar sem hún hefur alið upp fimm börn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sólin kemur upp að nýju 

En hvernig er tilfinningin að vera hugsanlega að pakka í síðasta sinn og koma ekki hér aftur?

„Ég neita að hugsa svona. Innsæið segir mér að ég muni koma aftur. Ég er ekkert að fara að koma hérna í síðasta skipti,“ segir Valgerður.

Sólný segist eðlilega ekki hafa þann munað að geta hugsað sem svo. Húsið hennar er ónýtt. Hún segir að það hafi verið að morgni sunnudags eftir gosið sem rann inni í Grindavík sem hún fyrst áttað sig á því að hún muni aldrei aftur búa í húsinu þar sem hún ól fimm stráka.

„Sólin kom upp á sunnudagsmorgni. Ég fékk svona dramatískt augnablik þar sem ég horfði á sólina koma upp og viðbragðsaðilar voru á hverju strái. Í sömu andrá horfðist ég í augu við það að ég myndi aldrei aftur búa í húsinu sem ég hef verið í í 15 ár og alið upp fimm stráka. En á þessum fallega morgni fékk ég þessa dásamlegu sýn um að sólin kemur alltaf aftur upp. Lífið heldur alltaf áfram og þetta er ekki eitthvað sem ég get stjórnað. Það er vissulega sorg. En af sama skapi ætla ég að halda í vonina að ég muni koma hérna aftur þó ég muni búa í öðru húsi.“

Hún röltir með blaðamönnum að húsinu sínu sem allt er skrumskælt eftir hreyfingar í jarðskorpunni. 

Í bókastafla sem liggur á gólfinu á heimili Sólnýjar eftir …
Í bókastafla sem liggur á gólfinu á heimili Sólnýjar eftir jarðskjálfta má finna bókina Hasar í Hrauninu. Kristinn Magnússon

Fólk reitt yfir einhliða ákvörðunum

„En ég ætla líka að vona að allt verði gert svo bærinn fái tækifæri til að blómstra að nýju. Þeir Grindvíkingar sem eru sárir og reiðir, eru svekktir yfir því að ekki sé hlúð betur að fyrirtækjunum okkar. Það er ekkert samtal. Þetta eru einhliða ákvarðanir sem teknar eru af almannavörnum,“ segir Sólný.

Hún tekur þó fram að hún er mjög þakklát fyrir það öryggi sem almannavarnir hafa veitt.

„En á sama tíma vil ég að mér sé treyst til að taka ákveðnar ákvarðanir varðandi mitt líf. Til dæmis varðandi aðgengi. Nú er ég að koma heim og er að pakka mér út úr húsinu að eilífu. Ég er með tíma frá 9-17. Prófið þið að pakka búslóð út úr 350 fermetra húsi á þessum tíma. Það er ekki nóg að hlusta á okkur. Það verður líka að heyra það sem við erum að segja,“ segir Sólný. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert