Páll Erland, forstjóri HS Veitna, segir framboð af heitu vatni og rafmagni nú vera komið í eðlilegt horf á Suðurnesjum.
Hann segist þakka því hve viðgerð tókst fljótt að ekki urðu miklar skemmdir vegna heitavatnsleysis.
„Ég þakka líka samheldni fólks á svæðinu, að passa upp á eignir með þeirri takmörkuðu rafkyndingu sem var í boði.
Sömuleiðis þakka ég þeirri nýbreytni hjá HS Veitum að ferja heitt vatn frá Hafnarfirði á tankbílum til svæðisins. Það stuðlaði að því að kerfin okkar voru tilbúin til áfyllingar þegar heita vatnið fór að renna frá Svartsengi.“
Páll segist merkja það að hlutir hafi færst í nokkuð eðlilegt lag að HS Veitum berist nú fá símtöl um leka eða bilanir.
Hann segir því engan orkuskort lengur á Suðurnesjum og bætir við:
„Það er alltaf gott að tileinka sér skynsamlega notkun á rafmagni og heitu vatni, en ekki er ástæða til að sýna meiri ráðdeild núna en venjulega.“