Eigendur fataverslana í Fellsmúla telja margra milljóna króna tjón hafa orðið vegna eldsvoðans sem braust út í bifreiðaþjónustu N1 í gær.
Verslunin Stout, sem er staðsett fyrir neðan rýmið þar sem eldurinn kom upp, er illa leikin og er mikla brunalykt þar að finna. Þá eru líklega miklar vatnsskemmdir í versluninni.
Fríða Guðmundsdóttir, eigandi fataverslunarinnar Curvy og Stout, og bróðir hennar Arnar Freyr Guðmundsson, meðeigandi Stout, voru mætt í Fellsmúla í morgun að skoða vettvang.
Fríða telur Curvy hafa sloppið nokkuð vel og segir hún það hafa komið sér á óvart að ekki væri mikla brunalykt þar að finna.
Aðra sögu sé þó að segja af Stout þar sem aðkoman var öllu verri.
„Við máttum ekki koma inn. Hrikaleg lykt þegar við náðum að opna baka til. Við sáum að það voru vatnsskemmdir á bak við þar sem lagerinn er. Við í raun megum ekkert gera fyrr en að það kemur matsmaður frá lögreglunni – fyrr en lögreglan er búin að taka út húsnæðið og tryggja að það sé öruggt,“ segir Fríða.
„Ég veit ekki hvort við getum bjargað neinu í Stout en við verðum bara að sjá og reyna að gera það besta úr þessu,“ bætir hún við.
Stout opnaði dyr sínar fyrir viðskiptavinum fyrst í september á síðasta ári. Systkinin segja þetta mikið áfall fyrir nýja verslun. Telja þau líklegt að öll fötin séu ónýt.
„Þetta er rosalega mikið tjón – líklega upp á tugi milljóna, myndi ég segja. Auðvitað vill maður reyna að bjarga einhverju eða fá eitthvað fyrir þetta en við verðum bara að bíða og sjá og gera það besta úr þessu. Það voru dekk að brenna þarna uppi og alls konar efni, við vitum ekkert hvað er búið að fara í fötin,“ segir Hólmfríður.
Nú sé spurning hvort nauðsynlegt sé að farga öllum fatnaði.
En eru vörurnar tryggðar?
„Já, partur af þeim en alls ekki nóg. Þetta verður alltaf töluvert tjón, alveg sama hvað.“
Það hefur verið átakanlegt að horfa á þetta í beinni útsendingu í gær?
„Við stóðum við strætóskýlið og horfðum á draumana fuðra upp,“ segir Arnar Freyr.
„Maður var mjög svartsýnn og hélt þetta væri allt búið en maður reynir að horfa á björtu hliðarnar. Svo heyrði maður líka bara sprengingarnar og maður gat ekkert gert þannig að við bara þurftum að fara heim og koma aftur í dag,“ bætti Hólmfríður við.
„Maður svaf ekkert mikið í nótt,“ segir Arnar Freyr.