Nálgun Kristrúnar „raunsæ“

Jóhann Páll er sáttur við ummæli formannsins Kristrúnar sem sést …
Jóhann Páll er sáttur við ummæli formannsins Kristrúnar sem sést hér í bakgrunni. Ljósmynd/Aðsend

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, tekur undir orð Kristrúnar Frostadóttur, formanns flokksins, um að hælisleitendakerfið hér á landi sé ósjálf­bært og að Ísland eigi ekki að skera sig úr frá Norður­lönd­um. Kristrún ræddi málefni hælisleitenda í hlaðvarpsþætti á dögunum og þar sagði hún jafnframt að ekki sé hægt sé að vera með opin landa­mæri sam­hliða vel­ferðar­kerf­inu.

„Ég er sammála Kristrúnu og finnst hún nálgast þessi mál af raunsæi,“ segir Jóhann Páll í skriflegu svari til mbl.is. „Þessi mál eru auðvitað stöðugt til umræðu innan flokksins og eðlilegt að um þau séu skiptar skoðanir í stórum flokki, rétt eins og hjá systurflokkum okkar í Evrópu,“ segir hann ennfremur.

Ekki hefur náðst í Loga Einarsson, þingflokksformann Samfylkingarinnar, vegna málsins. Þingmaðurinn Oddný Harðardóttir kvaðst ekki vilja tjá sig við fjölmiðla fyrr en málið hefur verið rætt innan flokksins. Hún segir ekkert samtal hafa farið fram innan flokksins um málið sem hún hefur tekið þátt í.

Dagbjört Hákonardóttir baðst undan viðtali. Ekki hefur náðst í Þórunni Sveinbjarnardóttur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert