Ýmir Örn Finnbogason, framkvæmdastjóri N1, segir það hafa verið erfitt að fylgjast með stórbrunanum sem varð í bifreiðarþjónustu N1 í Fellsmúla í gærkvöldi. Sérstaklega vegna þess hve brokkgengt slökkvistarfið var á tímabili.
Þrátt fyrir það þakkar Ýmir slökkviliðinu fyrir öflugt og gott starf enda ljóst að ef ekki hefði verið fyrir alla þá sem komu að slökkvistarfi þá hefði geta farið mun verr.
„Þetta var hræðileg aðkoma í gær en þökk sé góðu björgunarstarfi og snörum handtökum, bæði slökkviliðsmanna annarra sem komu að björgunarstarfi, tókst að afstýra stærri bruna. Maður er þakklátur öllum sem komu að björgunarstarfi og að ekki fór verr, því versta sviðsmyndin var að eldurinn myndi dreifa sér um alla húslengjuna, sem hann gerði ekki.“ segir Ýmir.
Aðspurður segir Ýmir enn ekki ljóst hversu mikið tjón varð í brunanum. Hann segir það þó eiga eftir að koma betur í ljós þegar lögreglan verður búin að rannsaka vettvang og N1 fær aðgang að húsinu.
„Við gerum ráð fyrir töluverður hluti dekkjanna sé óskemmdur,“ segir Ýmir og útskýrir að í húsnæðinu hafi verið svokallað dekkjahótel þar sem dekk eru geymd fyrir viðskiptavini. Ýmir segir að haft verði samband við alla þá viðskiptavini sem geymdu dekkin sín á dekkjahótelinu. Hvort sem dekkin eyðilögðust eða ekki.
Hann segir dekk þeirra viðskiptavina sem ekki skemmdust í brunanum verða færð á önnur dekkjahótel og viðskiptavinir látnir vita hvar dekkin eru. Því næst verður haft samband við eigendur þeirra dekkja sem skemmdust í brunanum, en Ýmir segir N1 að sjálfsögðu koma til með að bæta sínum viðskiptavinum það tjón.
Þá segir Ýmir að fjöldi viðskiptavina hafi átt bókað í dekkjaskipti á dekkjaleigunni í dag, en hjá dekkjarleigunni er hægt að leigja vetrardekk til að mynda til að komast út á land.
Starfsmenn N1 fengu þó, í samráði við lögreglu og slökkvilið, aðgang að þeim hluta húsnæðisins sem ekki brann í morgun og gátu þá sótt dekk fyrir þá sem áttu bókað hjá dekkjaleigunni um helgina.
„Þessir viðskiptavinir verða afgreiddir annars staðar í dag því þeir eru líklegast að fara út á land og eru þess vegna að leigja vetrardekk,“ segir Ýmir.