Jónas Birgisson, fjármálastjóri Pizzunnar, var að bíða eftir því að fá að skoða aðstæður í húsakynnum fyrirtækisins við Fellsmúla í morgun þegar blaðamaður mbl.is hitti hann á vettvangi.
Mikill eldur braust út í bifreiðaþjónustu N1 að Fellsmúla 24 á sjötta tímanum síðdegis í gær en Pizzan er til húsa í Fellsmúla 26. Allt tiltækt slökkvilið var kallað á vettvang og tókst að slökkva í síðustu glæðunum í nótt.
„Ég heyrði um eldsvoðann í fréttunum um sex leytið í gær. Svæðisstjórinn mætti strax á staðinn og ég kom á vettvang um átta leytið í gærkvöld,“ segir Jónas við mbl.is.
Jónas segir að honum hafi ekki litist á blikuna til að byrja með enda var mikill eldur á efri hæð hússins en húsnæði Pizzunnar er á jarðhæðinni. Hann segir að slökkviliðið hafi náð tökum á eldinum um tíuleytið.
„Við getum hugsanlega opnað staðinn í dag en í síðasta lagi á morgun. Mér skilst að það sé bara vatnsleki í þessu bili sem við erum með okkar starfsemi og að tækin hafi sloppið óskemmt en við eigum eftir að fara yfir stöðuna betur. Nú bíðum við bara eftir því að fá vörur frá birgjum okkar.“
Jónas telur mikla mildi að eldurinn hafi ekki borist í fleiri bil í húsbyggingunni. „Ég held að við verðum að teljast heppinn því þetta leyti alls ekki vel út á tímabili í gær. Við erum með allar okkar tryggingar í lagi sem skiptir miklu máli í svona rekstri og nú bíðum við eftir að menn frá tryggingarfélaginu skoði aðstæður og leggi mat á tjónið. Við vonum besta,“ segir Jónas.