Klara Ósk Kristinsdóttir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið við vettvangi í Fellsmúla þar sem mikill eldur braust út í bifreiðaþjónustu N1 á sjötta tímanum í gær. Tæknideildin mun rannsaka eldsupptök síðar í dag.
Allt tiltækt slökkvilið var kallað á vettvang og tókst að slökkva í síðustu glæðunum í nótt. Mun tæknideild lögreglunnar hefja rannsókn á vettvangi við birtingu, að sögn Ásmundar Rúnars Gylfasonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
„Tæknideildin kemur og skoðar vettvang með tilliti til þess hvort að það sé hægt að átta sig á eldsupptökum,“ segir Ásmundur en enn er óljóst um upptök eldsins og þá hvort um íkveikju hafi verið að ræða eða ekki.
Ásmundur segir að búið sé að aflétta helstu lokunum á svæðinu, en svæðið sé þó enn afgirt austan megin við húsið. Nú vinnur lögreglan að því að haga lokunum með þeim hætti að hægt verði að hefja starfsemi með eðlilegum hætti í nærliggjandi húsum.
Spurður hvort hægt verði að hefja starfsemi í dag í þeim fyrirtækjum sem staðsett eru í sömu byggingu og eldurinn kom upp svarar Ásmundur að það sé enn óljóst á þessum tímapunkti.