Sat á fundi þegar hún varð vör við reykinn

Sprungur mynduðust í gluggum sem sneru að eldsvoðanum.
Sprungur mynduðust í gluggum sem sneru að eldsvoðanum. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Eigandi tannlæknastofunnar Krýnu segir stofuna hafa sloppið vel vegna eldsvoðans í Fellsmúla í gær.  

Tannlæknastofan rekur starfsemi sína í Hreyfilshúsinu sem gnæfir yfir bifreiðaþjónustu N1 þar sem eldurinn braust út.

„Við sluppum með sviðið skottið,“ segir Elín Sigurgeirsdóttir, eigandi stofunnar.

Sprungur mynduðust í gluggum í norðanverðri byggingunni, sem sneru að brunanum, en miðað við umfang eldsvoðans hafi tjónið verið lítið. Skilar Elín þakklæti til viðbragðsaðila og slökkviliðsins.

Elín Sigurgeirsdóttir, stofnandi Krýnu. Ljósmynd af móður hennar sem lést …
Elín Sigurgeirsdóttir, stofnandi Krýnu. Ljósmynd af móður hennar sem lést árið 2002 hangir á tannlæknastofunni. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Hljóp yfir þegar reykur sást

„Það vill svo til að ég er formaður Tannlæknafélagsins og ég var á stjórnarfundi í Síðumúlanum hérna rétt við hliðina, og ég sá reykstrókana ganga upp af húsinu, og hljóp hérna yfir og sá hvað var í gangi,“ segir Elín spurð hvenær hún hafi fengið fregnir af stórbrunanum. 

„Við máttum ekki koma neitt nálægt þessu fyrr en í morgun.“

Hvernig var aðkoman í morgun?

„Það var bleyta niðri en allt sem að okkur snýr hefur sloppið ótrúlega vel,“ segir Elín.

Starfsemin óskert

Starfsmenn á vegum tryggingafélags eru væntanlegir í dag með loftræstibúnað og þarf að skipta um síur í loftræstikerfum. Elín kveðst þó eiga von á því að starfsemi stofunnar haldi sínu striki.

Hún ítrekar að stofan hafi sloppið ótrúlega vel. Telur hún verndarengil hafa séð til þess.

„Fyrir 22 árum síðan þá dó móðir mín, Halla Sigurjóns, sem var tannlæknir. Og ég er alveg sannfærð um að hún hafi verið hérna að passa upp á okkur. Hún er alla daga hér með okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert