„Ég held að þetta hafi sloppið betur en á horfðist í byrjun. Slökkviliðið vann greinilega frábæra vinnu með því hindra að eldurinn færi ekki inn í fleiri rými í húsinu.“
Þetta segir Björn Broddason, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, þegar hann ræddi við blaðamann mbl.is fyrir utan verkstæði N1 í Fellsmúla þar sem varð stórbruni í gærkvöld.
„Ástandið er þokkalegt að sjá svona við fyrstu sýn en þetta á allt eftir að skoðast betur. Við ætlum að reyna að koma því þannig fyrir að starfsmenn hjá N1 geti komið og skoðað aðstæður og reyna að koma þessu í gang að einhverju leyti. Þessi tvö bil á vegum N1 í húsinu eru talsvert skemmd og dekkjalagerinn sem er hinum megin í húsinu lítur mjög illa út og þar er allt brunnið,“ segir Björn.
Hann segir að svo stöddu sé ekki vitað um eldsupptök en tæknideild lögreglunnar var mætt snemma í morgun á staðinn í rannsóknarvinnu. Björn segir að niðurstaða úr þeirri rannsókn liggi sennilega ekki fyrir fyrr en eftir helgina.
„Aðstæður eru erfiðar. Það er mikil mengun í húsinu, mikill hiti og óþrifnaður. Þetta verður bara að skoðast í rólegheitum,“ segir Björn.