„Eftir standa betri leikskólar og betri þjónusta“

Andri Steinn Hilmarsson, fulltrúi meirihluta bæjarstjórnar í Kópavogi í starfshóp …
Andri Steinn Hilmarsson, fulltrúi meirihluta bæjarstjórnar í Kópavogi í starfshóp um leikskólamál. Myndin er samsett. Ljósmynd/Aðsend, mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enginn leikskóli hefur þurft að loka deildum í Kópavogi síðan að nýtt leikskólakerfi var tekið upp og þá hefur dvalartími barna styst verulega. Tekjulægri heimili virðast ánægðari með breytinguna.

Þetta segir Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, í samtali við mbl.is en bærinn birti í fyrradag könnun sem mældi ánægju foreldra og starfsmanna með nýtt kerfi.

Hann nefnir að nú sé komin ágætis reynsla á kerfið sem hefur vakið nokkuð mikil viðbrögð frá innleiðingu þess.

„Þessar breytingar vöktu strax mikinn áhuga og nokkuð sterk viðbrögð, enda vorum við að vinna með kerfi sem var að þroti komið. Lokunardagarnir á síðasta ári, allt árið, voru 212 talsins. Þannig við sáum að það þyrfti að grípa til aðgerða og það strax,“ segir Andri.

Tölvuteiknuð mynd/Kópavogur

Tekjulægri heimili ánægðari

Stærsta breytingin í kerfinu er sú að fyrstu sex tímarnir á hverjum degi eru gjaldfrjálsir en dvalartími umfram það hækkaði í verði.

„Við sjáum það að ríflega 20% leikskólabarna í Kópavogi eru núna í sex tímum eða skemur og það er töluvert stökk frá því það var, sem var 2%.“

Hann nefnir að bæjarstjórn hafi þótt mikilvægt að mæla viðhorf foreldra til kerfisins og í þessari könnun voru um 1.400 manns sem tóku þátt. Hann tekur eftir því að mismunandi skoðanir komi fram í könnunni. Fólk sé ýmist sátt, ósátt og allt þar á milli.

„Ef maður tekur stóru myndina þá sjáum við það að sveigjanlegur dvalartími er mjög jákvæður fyrir skipulag fjölskyldunnar og það kemur líka fram að tekjulægri heimili eru mjög ánægð með þessar breytingar,“ segir hann og nefnir einnig að fólk sem ekki er með íslensku að móðurmáli virðist vera sátt.

Mönnunarvandi nánast ekki fyrir hendi lengur

Einnig var lögð könnun fyrir starfsmenn bæjarins. Spurður hvort að starfsmenn séu ánægðari með nýja kerfið segir hann að kennarar séu ánægðir en minnir þó einnig á að það sé í raun enginn samanburður fyrir og eftir breytinguna til að meta það.

„Samanburðurinn snýst kannski fyrst og fremst um það að mönnunin er miklu betri hjá okkur. Meira og minna allir leikskólar hjá okkur eru fullmannaðir og ástæðan fyrir öllum þessum lokunardögum sem ég nefndi áðan – 212 talsins – er auðvitað sökum manneklu og álags.

Ég held að þar sé auðvitað ein besta mælingin á því hvernig okkur gengur að bregðast við mönnunarvanda, það er að hann er nánast ekki lengur fyrir hendi,“ segir Andri.

Segir fólk fá meira fyrir peninginn

Arn­ar Þór Pét­urs­son, stjórn­ar­formaður for­eldra­fé­lags­ins SAM­LEIKS í Kópa­vogi, sagði í samtali við mbl.is að sum­um for­eldr­um þætti eins og Kópa­vogs­bær hefði velt byrði leik­skóla­kerf­is­ins yfir á fjöl­skyld­urnar.

Spurður út í þessi ummæli segir Andri að hann sé ósammála þessu. Hækkunin fyrir þá sem héldu óbreyttum dvalartíma hafi verið rúmlega 10.000 krónu á mánuði.

„Ég vil frekar líta svo á að fólk sé að fá meira fyrir peninginn. Eftir standa betri leikskólar og betri þjónusta,“ segir Andri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert