Verði fjármunir úr sjóðum Náttúruhamfaratryggingar Íslands nýttir til kaupa eignaumsýslufélags ríkisins á íbúðarhúsnæði í Grindavík mun það veikja gjaldþol stofnunarinnar, endurskoða þyrfti fjármögnun NTÍ og það fæli í sér grundvallarbreytingu á hlutverki.
Þetta kemur fram í umsögn NTÍ um frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um kaup á íbúðarhúsnæði Grindvíkinga.
Í frumvarpinu segir að ráðherra geti ráðstafað allt að 15 milljörðum króna úr NTÍ með heimild í fjárlögum til eignaumsýslufélagsins vegna kaupa þess á fasteignum í Grindavík.
„Komi til þess að ráðherra ákveði að nýta að fullu heimild sína samkvæmt 6. gr. frumvarpsins til að ráðstafa fjármunum stofnunarinnar til þess að fjármagna uppkaup fasteigna í Grindavík mun slík ákvörðun óhjákvæmilega veikja gjaldþol stofnunarinnar til muna og ganga nærri sjóðum NTÍ, enda myndi slík ráðstöfun hafa í för með sér að 25% af eigið fé stofnunarinnar yrði með þeim hætti ráðstafað til aðgerðanna til viðbótar við þær vátryggingabætur sem NTÍ mun þurfa að greiða til vátryggðra tjónþola vegna hamfaranna,“ segir í umsögn NTÍ.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.