„Ófremdarástand“ í útlendingamálum

Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar.
Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir Kristrúnu Frostadóttur, formann flokksins, ekki vera að færa flokkinn nær miðjunni í útlendingamálum. Hann segir einingu ríkja innan forystu flokksins.

„Það er enginn að færa sig inn á miðjuna. Hún er bara lesa í ófremdarástand í málaflokknum sem hefur byggst upp á síðustu árum á ábyrgð sitjandi ríkisstjórnar, þá sérstaklega Sjálfstæðisflokksins sem hefur farið með dómsmálaráðuneytið öll þessi ár,“ segir Guðmundur aðspurður í samtali við mbl.is.

Hrein og klár jafnaðarmannastefna

Hann segir engan í ríkisstjórninni vita sitt rjúkandi ráð hvernig eigi að bregðast við ástandinu í málaflokknum. Hann segir að Kristrún sé aðeins að boða það að tekið verði föstum tökum á málaflokknum til að koma á hann skikk og gæta vel að mannréttindum fólks sem þurfi að taka á móti.

„En á sama hátt horfa á málið í stærri heild því að mannréttindi eru auðvitað grundvallaratriði í okkar jafnaðarstefnu en þau þurfa að fylgja skynsemi og ráðdeild,“ segir hann og bætir við:

„Hún er einfaldlega, með skynsemi að leiðarljósi, að lesa í stöðuna og meta það hvað þarf að gera í málaflokknum, því við búum við ástand sem við getum ekki búið við lengur. Hér er um hreina og klára jafnaðarstefnu að ræða en skynsemisstefnu um leið.“

Guðmundur segir að forðast þurfi með öllum tiltækum ráðum skautun í umræðunni yfir þessum málaflokki og sundrung í samfélaginu. Hann segir að ná þurfi sátt um málaflokkinn.

„Og það munum við jafnaðarmenn gera þegar við tökum við landsstjórninni,“ segir hann og bætir því við að jafnaðarmennskan sé alþjóðleg hreyfing.

Ummæli Kristrúnar þurfi ekki að koma á óvart

Helga Vala Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, tók ekki vel í orð Kristrúnar um málaflokkinn, sem hún lét falla í hlaðvarpinu Ein Pæling. Ekki hef­ur náðst í Loga Ein­ars­son, þing­flokks­formann Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og þá hefur Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar einnig neitað að tjá sig um orð Kristrúnar. Seg­ir Oddný ekk­ert sam­tal hafa farið fram inn­an flokks­ins um málið sem hún hef­ur tekið þátt í.

Hefði átt að vera tekin meiri umræða um málaflokkinn innan flokks?

„Þetta hefur verið það mál sem hefur verið mest rætt í íslensku samfélagi síðustu misserin og þar á meðal hjá jafnaðarmönnum. Þessi umræða hefur verið gegnumgangandi þannig það þarf ekkert að koma á óvart,“ svarar Guðmundur.

Hann segir eðlilegt að í málaflokki, sem nær til margra þátta, að ekki gangi allir flokksmenn alveg í takt um einstök atriði.

„Stóra línan er þessi: Við viljum sýna mannúð og mildi en við viljum ganga frá þessum málum þannig að það fólk sem við tökum við geti búið hér við sæmd og öryggi. En við áttum okkur á því að á því eru líka takmörk sett hvað litla Ísland getur tekið við móti mörgum og gert vel við marga,“ segir Guðmundur.

Forysta flokksins gengur saman í takt

Hann ítrekar að útlendingamálin séu margþætt og nái til margra þátta, ekki aðeins hælisleitenda. Hann segir skipta máli að umræða um málaflokkinn sé opin og heiðarleg og segir að Samfylkingin vilja gera vel í að taka á móti fólki á flótta. 

Hann rekur það að til landsins séu að koma 4-5 þúsund hælisleitendur á ári, að hans sögn mest allt Úkraínumenn, og á sama tíma taki langan tíma að vinna úr umsóknum.

„Þá spyr maður líka: hvenær er komið í rjáfur í því sambandi? Ef það kæmu hér 50 þúsund, myndum við ráða við það?“ segir hann og bætir við:

„Við viljum gera vel en við verðum að gera það skynsamlega. Forysta flokksins er algjörlega í takt í þessum málum,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka