Læknar og hjúkrunarfræðingar innan og utan Landspítalans hafa gagnrýnt þá ákvörðun stjórnenda spítalans að auglýsa 23 nýjar stöður yfirmanna á spítalanum. Telja viðmælendur mbl.is að þar með sé enn á ný verið að hringla með stjórnskipulag spítalans og að ákvörðunin feli í sér afturhvarf frá breytingum á fyrra ári þegar 10 stjórnendastöður voru lagðar niður.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala er gestur Spursmála og er þar spurður út í þessa ákvörðun. Segir hann eðlilegt að spurningar vakni við ákvörðun sem þessa en að hann hafi reynt að útskýra hvert verið sé að fara með ráðningunum.
„Þegar ég tók við starfi forstjóra Spítalans þá rýndi ég allt stjórnskipulag spítalans mjög vel og hvernig það myndi nýtast í þeim verkefnum sem voru og eru. Og mér fannst mikilvægt að gera breytingar, styrkja verulega framlínustjórnunina og minnka þá miðlæga stjórnsýslu.“
Hann segir að þótt nú fjölgi stjórnendum þá sé þetta hluti af stærri breytingafasa þar sem aðrar stjórnendastöður hafa nú þegar verið lagðar niður.
„Þannig að ég byrjaði reyndar á því að fækka þeim störfum. Við vorum með eina 18 miðlæga stjórnendur, 8 framkvæmdastjóra ef ég man rétt, 10 forstöðumenn. Þannig að ég fækkaði þeim störfum strax um 7 og er búinn að fækka um eitt í viðbót núna, þó það hafi ekki farið hátt því ég sameinaði tvö svið. Þessi störf eru í framlínu og þessi stjórnunarlegu verkefni eru hlutastörf í mörgum tilvikum.“
Og hann segir að þessi vinna haldi áfram og að markmiðið sé að bæta rekstur spítalans og þjónustu.
„En svo erum við að rýna öll störf. Það eru öll störf undir. Þetta er áfangi tvö núna og svo verður áfangi þrjú. Og við munum einfaldlega haga þessu eftir því hvernig þörf krefur til að ná árangri og það er auðvitað markmiðið að árangursmeta þessar breytingar sem eru gerðar.“
- Eykur þetta miðstýringu eða eruð þið að dreifa valdinu til ákvarðanatöku?
„Það er það sem við erum að reyna að gera. Að dreifa valdinu og gera stjórnunina skilvirkari í fremsta laginu.“
- Er þetta dýrara?
„Við metum þetta sem kostnaðaraukningu núna, já. Kannski 250 milljónir. En á móti kemur að við væntum rekstrarbata, og vonandi skilar þetta, markmiðið er auðvitað að þetta skili sér í bættum rekstri, kostnaðarlegum ávinningi, betri þjónustu, auknum gæðum, aukinni skilvirkni. Þetta eru markmiðin.“
Viðtalið við Runólf má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan: