Reiðmenn og reykvélar í tökum við Rauðhóla í vor

Leyfi hefur verið veitt til kvikmyndatöku á reiðstíg í lok …
Leyfi hefur verið veitt til kvikmyndatöku á reiðstíg í lok maí. mbl.is/Eggert Jóhannesson

RVK Studios, fyrirtæki Baltasars Kormáks, hefur fengið leyfi frá Umhverfisstofnun til kvikmyndatöku og aksturs utan vega innan Rauðhóla. Leyfið er veitt fyrir umfangsmiklar tökur fyrir sjónvarpsþætti um Vilhjálm sigursæla Englandskonung á vegum sjónvarpsstöðvarinnar CBS. Þættirnir kallast King and Conqueror og í aðalhlutverkum verða James Norton og Nikolaj Coster-Waldau.

Komið hefur fram í fjölmiðlum að tökur fyrir þættina fara fram í myndveri og á Heiðmerkursvæðinu en umræddar tökur við Rauðhóla eru fyrirhugaðar í lok maí. Í umsókn fyrirtækisins kemur fram að myndað verður á reiðstíg er liggur um Rauðhóla. „Við tökurnar yrðu notaðir tíu hestar og tveir hestvagnar. Reykvélar yrðu notaðar við tökurnar og er samtal í gangi við Heilbrigðiseftirlit vegna efnainnihalds,“ segir í umsókninni en þar segir jafnframt að 110 manns komi að tökunum. Tækjabílum verður lagt á bílastæðum innan og utan fólkvangsins en búðir verða utan fólkvangsins. Þá verða tvö sexhjól notuð til að ferja búnað og leikmuni að tökustað.

RVK Studios hefur áður sótt um afnotaleyfi hjá Garðabæ vegna kvikmyndataka í Heiðmörk. Þar er til að mynda stefnt að því að kvikmynda orrustuna við Hastings á túni við Hjallaflatir. Í umsókn fyrirtækisins kom fram að 180 manns tækju þátt í bardaganum á 50-70 hestum.

Baltasar greindi frá því á morgunverðarfundi Kompanís, viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins, í nóvember að þættirnir yrðu átta talsins og umfang framleiðslunnar væri í kringum 50 milljónir dollara sem samsvarar tæpum 6,9 milljörðum íslenskra króna. Hann verður einn leikstjóra King and Conqueror.

Fréttin birtist fyrst í Morgunblaðinu á fimmtudaginn.

Baltasar Kormákur.
Baltasar Kormákur. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert