Þjóðfélagið er offituhvetjandi

Sérfræðilæknirinn Erla Gerður Sveinsdóttir sérhæfir sig í offitumeðferð. Hún telur að Wegovy, sem er nýtt lyf við ofþyngd og offitu, geti hjálpað mörgum.

Hundrað þúsund með offitu

Offita er vaxandi vandamál á Íslandi, en í dag eru 7% barna með offitu og 28% fullorðina, sem þýðir að hundrað þúsund Íslendingar eru með offitu.

„Og miklu fleiri eru í ofþyngd. Við lifum í þjóðfélagi sem er offituhvetjandi. Við erum að rugla kerfin okkar svo mikið og þetta snýst ekkert um kaloríur inn og út; þetta er miklu flóknara en það. Við þurfum að horfa á þetta sem verkefni samfélagsins. Stóra ógnin núna er þessi gjörunni matur,“ segir Erla og segir slíkan mat hannaðan þannig að okkur langi alltaf í meira og meira.

„Þetta er passleg blanda af sykri, salti og fitu. Þá er flugeldasýning og við förum að innbyrða miklu meiri orku og minna af næringu,“ segir Erla og segir löngu tímabært að grípa inn í nú þegar þjóðin trónir í einu af toppsætunum yfir þyngstu þjóðir heims.

Von á enn breiðvirkara lyfi

Getur lyfið Wegovy leyst fituaðgerðir af hólmi?

„Já, að hluta til. Þær verða enn notaðar, en kannski öðruvísi. Innan örfárra ára verður notuð samsett meðferð en von er á nýju lyfi sem fer inn á enn fleiri kerfi en Wegovy. Lyfin eru alltaf að fá breiðara virknisvið og eru farin að slaga upp í sömu virkni og magaermi. Magahjáveitan heldur sínu sem öflugasta meðferðin við alvarlegri offitu,“ segir Erla og segir algengt að þeir sem fari nú í aðgerðir fari síðar á lyfin, enda eðlilegt að fólk þyngist eitthvað aftur eftir aðgerðir.

Ítarlegra viðtal er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina og í Dagmálsþætti sem opinn er áskrifendum hér. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert