Einangrari sem slitnaði olli rafmagnsleysi á Selfossi, Hveragerði, Þorlákshöfn og nærsveitum í morgun. Þetta segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets í samtali við mbl.is.
Hveragerðislínu 1 og Þorlákshafnarlínu 1 leysti út klukkan 07:41 í morgun.
Eftir hádegi kom í ljós að einangrarinn slitnaði og fór í rafmagnsstaur sem kviknaði í.
Steinunn segir að bæði staur og kross í stæðu í Þorlákshafnarlínu séu ónýtir. Vinnuflokkur er á staðnum að undirbúa vinnu við að skipta út því sem eyðilagðist.
„Við erum á staðnum að gera við og klárum það bara á næstu klukkustundunum.“